Bolungavík: bærinn selur Vitastíg 1-3 undir 12 leiguíbúðir

Bæjarráð Bolungavíkur hefur samþykkt að selja húsnæði í eigu bæjarins að Vitastíg 1 – 3, um 1250 fermetrar, til Skýlis ehf fyrir 60 milljónir króna. Skýlir ehf mun breyta húsnæðinu í 12 íbúðir. Framkvæmdastjóri Skýlis ehf er Hans Þórðarson, en hann keypti húsnæði að Aðalstræti 22, þar sem áður voru skrifstofur Einars Guðfinnarssonar hf, og breytti því í íbúðir.

Jafnframt hefur bæjarráðið samþykkt að bærinn verði 40% eigandi í Skýli leigufélagi ehf á móti 60% eignarhlut Skýlis ehf. Bolungavíkurkaupstaður greiðir 15 m.kr. fyrir sinn eignarhlut og mótaðilinn leggur fram 22.5 m.kr.

Ætlunin er að Skýlir leigufélag ehf kaupi íbúðirnar þegar þær verða tilbúnar og leigi þær út.

Gert er ráð fyrir í forsendum málsins að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, veiti leiguíbúðalán og að HMS og sveitarfélagið veiti samtals 30% stofnstyrk til leiguíbúðanna. Ríkið veiti 18 stofnstyrk og bærinn 12%.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri var ánægður með framvindu mála og sagðist fullur tilhlökkunar fyrir þessu verkefni. „Þetta er mikilvægt verkefni fyrir Bolungarvík.“

DEILA