Bíddu því ég kem til þín – seinni hluti

Við vorum á leið á flugvöllinn á Bíldudal. Þar sem ó óskuð ósk var að rætast. Ósk sem ég hefði þó sannlega óskað mér ef ég hefði bara vitað það að hægt væri að óska sér einhvers. En ég meina ég var nú bara rétt orðinn sex ára og þá þarfnast maður einskis, því tilveran og hver dagur er einsog glænýtt ævintýr. Svo er ég líka bara svoddan glókollur að ég þarf ekki mikið til að dudda mér við. Einu sinni sat ég heilan dag með æskuvini mínum í svo brjáluðu veðri að við urðum að vera inni. En útum skjáinn sáum við olíutunnu er hafði fokið í sjóinn og þá upphófst mikið sjónarspil sem jafnaðist alveg á við góða karate mynd með Bruce Lee, sem var þá í miklu uppáhaldi hjá okkur. Enda má segja að grey tunnan er ofan í sjóinn valt hafi verið tekinn í karate af öldum hafsins. Eina sem okkur datt í hug að segja var: Ekki vildi ég vera þessi tunna.

Fararskjóti okkar pabba á Bíldudalsflugvöll var hið íslensk kallaða Rúgbrauð sem Volkswagen fabrikan framleiddi. Um leið og við ókum út úr þorpinu steig pabbi heldur betur bensíngjöfina því við vorum víst að verða of seinir á völlinn. Nú var gaman og þegar ég leit á pabba þá fannst mér einsog hann væri ekki lengur hann sjálfur heldur miklu frekar Dýrlingurinn. Sem Roger Moore túlkaði svo stórkostlega í sjónvarpinu heima í samnefndum þáttum. Ég meina bíll Dýrlingsins skransaði alltaf og öskraði meira að segja í sandi. Á svipstundu datt ég úr dýrlingsdæminu þegar pabbi byrjaði að syngja: Nú blika við sólarlag sædjúpin köld. Og þá ímyndaði ég mér bara að pabbi væri Raggi frændi Bjarna. Þó ekki með hangandi hendi enda varð hann að vera með báðar hendur á stýri eins og Bjössi á mjólkurbifreiðinni.

Pabbi hætti snögglega að syngja um sólarlag Þorsteins Erlingssonar og horfði nú þess í stað til himins. Flugvélin var akkúrat að hefja aðflugið og gott ef við værum bara ekki að lenda á sama tíma á vellinum. Cessna 310 flugvél úr Reykjavík og Volkswagen Rúgbrauð Jónsbúðarinnar á Bíldudal. Hver var eiginlega í þessari flugvél sem við pabbi vorum að sækja? Ein bifreið til viðbótar var á vellinum, hvítur Citroen, þessi skrítni bíll er gat lyft sér upp að aftan alveg sjálfur.

Nú kom Cessnan á fúllýspýtt milljón og lenti svona líka listilega á Bíldudalsflugvelli. Pabbi var kominn útúr bifreiðinni og var að tala við kallinn á Citroeninum meðan ég góndi á flugvélina er nú nálgðist óðum. Margt fór ég gegnum sex ára kollinn á þeirri stundu en því miður man ég ekkert af því. En líklega má huxa sér að ég hafi verið að huxa mér hvaða dót ég fengi nú, því það var einmitt vaninn að þegar einhver kom úr borginni að ég fengi eitthvað dót. Æi, bara að það verði ekki eitthvað mjúkt eða jú mig vantar reyndar markmannshanska svona einsog Pat Jennings markvörður Arsenal er með. Samt ekki sama númer, hann er nebblega með nokk stærri hendur enda skora fáir hjá honum.

Nú nemur Cessnan staðar, hurðin opnast og út koma….þingmenn. Pabbi í alvöru, var ég næstum því búinn að segja. Allt í lagi þetta var þá bara góður bíltúr og kannski fæ ég að hitta flugmanninn. Þá gæti ég fengið hjá honum nokkur góð ráð svona áður en ég færi sjálfur að fljúga. Já, ég var nebblega búinn að ákveða að verða flugmaður þegar ég yrði eitthvað aðeins eldri. Ekki nóg með það heldur ætlaði ég líka að verða söngvari. Já, sko bæði. Það er alveg hægt spurjið bara Villa. Villa Vill. Uppáhalds söngvara minn og mitt fyrsta átrúnaðargoð. Hvað ég gæti nú gefið fyrir að fá að hitta hann. En glætan að það fari að gerast hér í dag, útá Bíldudalsflugvelli. Ekkert nema einhverjir þingmenn og svo bara einhver venjulegur flugmaður sem kann ekki einu sinni að syngja bara fljúga. Og þarna kemur flugmaðurinn niður litlu tröppurnar á flugvélinni. Hann er með sólgleraugu og skegg. Alveg einsog….

Ég stóð um stund og þagði, alveg einsog í laginu sem þessi skeggjaði söng. Það var einsog búið væri að styðja á pásu takann á segulbandstæki systur minnar akkúrat í miðju Daddy Kúl laginu með Boney M – sem hún er alltaf að hlusta á. Allt var kjurrt. Svo varð ég einsog þegar Frank Stapelton skoraði mark fyrir Arsenal að ég hljóp svo hratt að ég hrasaði og datt beint í fangið á óóskuðu óskinni. Vilhjálmi Vilhjálmssyni, flugmanni og söngvara.

Hann hló og tók mig svo hlýlega í fang sér. Svo hlýlega að ég vildi ekki fara úr hans fangi. Ekki einu sinni þegar hann settist uppí Rúgbrauðið og við ókum heim á Bíldudal. Ég sat bara líkt og í draumi í fangi þessa einstaka manns. Sem ég þekkti samt ekki neitt og hann þekkti heldur ekki þennan ógreinda ógreidda ofvirka glókoll. Áfram var ég í fangi hans er heim á æskuheimilið kom þar sem mamma beið með kaffi og veisluborð fyrir Villa og þennan glókoll er hékk enn í hans fangi. Pabbi var hinsvegar hlupin einsog svo oft áður að hitta þessa þingmenn og spjalla um….eitthvað.

Svo man ég bara ekki meir, nema ég sat í fanginu á Villa í eldhúsinu heima meðan hann gæddi sér á rúgbrauði með lundabagga og drakk kaffið heitt.

Svo var hann bara floginn og tæpu ári síðar var hann allur. Floginn eitthvað lengst útí geim einsog hann söng sjálfur um í einhverju lagi.

Víst var þetta bara einsog í Villa Vill laginu Dans gleðinnar.

„Það er svo margt að una við að elska, þrá og gleðjast við…..því allt sem maður óskar næst og allir draumar geta ræst.“

Elfar Logi Hannesson

DEILA