Arnarlax: telja enn hægt að hefja laxeldi í Djúpinu í ár

Björn Hembre forstjóri Arnarlax segist enn gera sér vonir um að hægt verði að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpinu í ár með útsetningu seiða eins og matsáætlun fyrirtækisins gerir ráð fyrir.

Í áætluninni segir að ráðgert er að hefja eldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á árinu 2021 og áætlað er að setja út á fyrsta ári um 1.780.000 seiði. Seiði verða 90-300 g að þyngd og er áætlað að þau muni ná sláturstærð á 15 til 24
mánuðum.

Matsáætlunin var send til Skipulagsstofnunar í ágúst á síðasta ári og lögum samkvæmt skal stofnunin senda frá sér sitt álit innan fjögurra vikna. Hins vegar tók stofnunin sér 6 mánuði til verksins og álitið kom ekki fyrr en í þessari viku. Spurningar vakna því hvort það muni ganga eftir að hefja eldið á þessu ári.

Það ræðst af þeim tíma sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun þurfa til að gefa út leyfin. Arctic Fish hefur þegar beðið í mánuð eftir sínum leyfum fyrir fiskeldinu í Djúpinu og þeir sem Bæjarins besta hafa rætt við telja að reikna megi með allt að þremur mánuðum.

Gangi það eftir verður komið nálægt vorinu og óvíst að takist að koma út seiðum og ef svo fer tefst eldið um ár.

Björn Hembre segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta að ekkert verði gert án leyfa og verið sé að skoða hvaða kostir eru í stöðunni ef leyfin koma ekki tímanlega. Hann bendir á að það þurfi að undirbúa kvíastæði, setja út kvíar o.fl. og setja saman starfslið. Engu að síður segist Björn vonast til þess að hægt verði að hefja eldið í júní 2021.

DEILA