Arctic Fish: aukinn hlutur íslenskra aðila

Vestfirska fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur lokið tæplega 9 milljarða króna hlutafjárútboði. Með útboðinu safnaði félagið um 5,3 milljörðum króna með sölu á nýju hlutafé, auk þess sem einn hluthafi seldi samhliða hluti að andvirði um 2,7 milljarða. Útboðinu lauk á skemmri tíma en áætlað var sökum mikils áhuga fjárfesta. Gengið í útboðinu var 61,2 norskar krónur á hlut.

Fjármagninu, sem Arctic Fish safnaði í útboðinu, verður varið í frekari uppbyggingu fyrirtækisins. Fjárfest verður í stækkun á seiðaframleiðslu og eigin vinnslu félagsins með áframhaldandi áherslu á sjálfbæran rekstur, þar sem eldið er í sátt við umhverfið og samfélagið. 

Fjórir nýir hornsteinsfjárfestar skráðu sig fyrir hlutum að jafnvirði 1,5 milljarði króna

Mikil umframeftirspurn var í hlutafjárútboðinu og vakti það áhuga bæði innlendra og erlendra fagfjárfesta. Fjórir hornsteinsfjárfestar koma nú til liðs við Arctic Fish og skráðu sig fyrir jafnvirði um 1,5 milljarði króna en það voru eignastýring norska bankans Nordea, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og tryggingafélagið Vörður. Alls tóku rúmlega 40 íslenskir fjárfestar þátt í útboðinu en auk þess var góð þátttaka á meðal starfsfólks og lykilstarfsmanna félagsins. Tveir af núverandi hluthöfum félagsins juku einnig við hlut sinn í útboðinu og keyptu bréf fyrir samanlagt 3,8 milljarða króna. 

Breiðara eignarhald og hærra hlutfall íslensks eignarhalds

Fyrir hlutafjárútboðið nam íslenskt eignarhald á Arctic Fish 2,5% en það eykst nú og verður 10,2%. Líklegt er að hlutfallið hækki enn frekar vegna áhuga innlendra fjárfesta þegar viðskipti hefjast með bréf Arctic Fish í kauphöllinni í vikulok. Eftir viðskiptin mun Norway Royal Salmon ASA, sem áður átti helmings hlutafjár, eiga um það bil 51,3% hlut í félaginu en Bremesco Ltd., sem fyrir átti 47,5%, mun eiga um 26,2% hlutafjár.

Ráðgjafar félagsins í ferlinu voru Arion banki hf., DNB Markets og Pareto Securities AS. Félagið hefur sótt um að hlutir félagsins verði teknir til viðskipta á Euronext Growth markaðnum í Osló og að óbreyttu munu viðskipti með bréfin hefjast föstudaginn 19. febrúar næstkomandi.

Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish: „Við erum afar ánægð með afraksturinn af útboðinu. Þetta gerir okkur kleift að fjármagna vöxt og frekari þróun á virðiskeðju fyrirtækisins. Það er jafnframt gleðiefni að sjá þennan áhuga frá bæði íslenskum fjárfestum, sem og starfsfólki félagsins. Það er ljóst að tiltrú starfsmanna og íslenskra fjárfesta á verkefnið er mikil og það er hluti af því afhverju ég tel að framtíð félagsins sé afar björt.“

DEILA