Arctic Fish: 5,3 milljarðar kr til uppbyggingar á Vestfjörðum

Seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.

Arctic Fish hyggst sækja 5,3 milljarða króna með sölu hlutafjár á hlutabréfamarkaði í Osló. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að féð verði að mestu leyti notað til þess að fjármagna „vöxt og þróun Arctic Fish á Íslandi, þar með talið fjárfestingar í seiðaframleiðslu, eldisbúnaðar, auknum lífmassa og í eigin vinnslu. Þessar fjárfestingar eru nauðsynlegar til þess að nýta sem best þau eldisleyfi sem félagið hefur og eru í farvatninu til frekari aukningar framleiðslu Arctic Fish til komandi ára.“

Útboðið hófst í gær, 11. febrúar 2021 og því mun ljúka í dag 12. febrúar 2021 klukkan 16:30. DNB Markets og Pareto Securities eru sameiginlega umsjónaraðilar skráningar félagsins á hlutabréfamarkað í Osló. Það er fyrirtækið Bremesco Holding Ltd sem sér um söluna og getur það eða Arctic Fish framlengt sölutímann eða hætt sölu fyrr.

Seldir verða 5,7 milljón nýir hlutir í félaginu og 3,3 milljón hlutir sem þegar hafa verið gefnir út. Það er fyrirtækið Bremesco Holding Ltd sem sér um söluna á þegar útgefnu hlutunum. Þá verður heimilt að framselja allt að 816.993 núverandi hluti í fyrirtækinu til viðbótar. Samtals verða því 9,8 milljón hlutir til sölu og er ráðgert að fyrir þá fáist 600 milljónir norskra króna eða um 9 milljarðar íslenskra króna.

Íslenskir fjárfestar koma inn

Tveir af núverandi hluthöfum, Norway Royal Salmon (NRS) og Novo ehf. hafa skuldbundið sig til að gerast áskrifendur að hlutum þar sem NRS tryggir sig í meirihlutaeigu með 200 milljónir og Novo fyrir 45 milljónir norskra króna. Novo er í eigu íslenskra aðila. Þar að auki hefur Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish skuldbundið sig til að gerast áskrifandi að tilboðshlutum fyrir samtals 41 milljón norskra króna og þá hafa aðrir stjórnendur og stjórn Arctic Fish sameiginlega skuldbundið sig til gerast áskrifendur að tilboðshlutum að upphæð sem nemur 4,6 milljónum norskra króna. Enn fremur hafa fjórir hornsteinafjárfestar, með ákveðnum skilmálum skuldbundið sig til að gerast áskrifendur í útboðinu en þeir eru Nordea Asset Management, Birta Lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Vörður tryggingar hf.

Félagið hefur sótt um stunda viðskipti með hlutabréf sín í Euronext Growth Oslo markaðnum og gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir viðskipti þann 19. febrúar næstkomandi.

Leiðrétting. Fram kemur í fréttatilkynningunni að nýir hlutir fyrir 350 nkr verði seldir í útboðinu og að andvirði þeirra 5,3 milljarðar króna verði ráðstafað til uppbyggingar á Vestfjörðum. Alls verða seldir hlutir fyrir 9 milljarða króna að meðtöldum sölu á þegar útgefnum hlutum. Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið leiðrétt til samræmis .

DEILA