Vesturbyggð: skýrsla um sameiningu við Tálknafjörð án samráðs við Tálknfirðinga

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að unnin verði greining og könnun á hagkvæmni sameiningar Vesturbyggðar við Tálknafjarðahrepp og að bæjarstjóra verði falið að sækja um styrk til jöfnunarsjóðs sem nýttur yrði til þess að vinna slíka könnun.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps segir að þessi tillaga sé ekki lögð fram í samráði við sveitarstjórn Tálknafjarðar.

Ólafur segir að samstarfs- og sameiningarmál hafi að sjálfsögðu verið rædd síðan hann kom til starfa hjá sveitarfélaginu en þó ekki með formlegum hætti.

„Það er ekkert leyndarmál að innan sveitarstjórnar á Tálknafirði er vilji til þess að fleiri möguleikar séu skoðaðir en einungis sameining þessara tveggja sveitarfélaga. Við ætlum okkur að taka þessi mál til frekari umræðu og skoðunar á árinu 2021, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem væntanlega verða í lagaumhverfi sveitarfélaga hvað varðar lágmarksfjölda íbúa.“

Ólafur bætir því við að persónulega telji hann að það væri óábyrgt að skoða ekki fleiri valkosti en sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

„Markmið sameiningar hlýtur að vera að búa til öflugt sveitarfélag sem getur staðið undir nauðsynlegri þjónustu og fjárfestingu, talað fyrir hagsmunum svæðisins og haft þann slagkraft sem þarf. Ég er ekki sannfærður um að nýtt sveitarfélaga með um 1300 íbúa og þrjá byggðakjarna nái þessum markmiðum betur en núverandi tvö sveitarfélög. Það er í það minnsta ljóst að sameiningarmál verða í umræðunni á þessu ári sem er að hefjast, hver svo sem lendingin verður á endanum.“

 

 

 

DEILA