Vegirnir í V-Barð

Nokkur umræða hefur verið um ástand vega og samgöngur í Vestur Barðastrandarsýslu að undanförnu. Dýrafjarðargöngin og tengingin norður er komin og því ber að fagna og sömuleiðis er ÞH leiðin suður á réttri leið. En ég ætla að snúa mér að vegunum og samgöngum í V-Barð. Það liggur fyrir að vegurinn frá Bíldudal um Hálfdán til Tálknafjarðar og áfram um Mikladal yfir í Patreksfjörð er víða í mjög slæmu ástandi og þarfnast viðhalds á stórun köflum strax. Þessi vegur er barn síns tíma og ekki byggður fyrir þungaflutninga en nú fara þarna um miklir flutningar. Að langmestu leyti eru þetta flutningar á laxi frá Bíldudal. Gera má ráð fyrir að 25 þúsund tonn verði flutt frá Bíldudal á þessu ári og gert er ráð fyrir aukningu næstu árin. Í dag föstudaginn 15. janúar fóru t.d. 8 stórir flutningabílar með samtals u.þ.b. 150 tonn. Útflutningsverðmætið þennan eina dag er nálægt hálf milljón króna á hvern íbúa á Bíldudal.

Bíldudalur. Mynd: Jörundur Garðarson.

Af augljósum ástæðum, eins og ég er búinn að nefna, verður að fara í það strax að gera við veginn á milli staða á svæðinu sem er orðið eitt atvinnusvæði og það hefur verið rætt á þessum vettvangi. Einnig er rætt um jarðgöng hér á milli fjarða, eins og víða annars staðar og sjálfsagt að koma því í umræðuna og á áætlun. Það þarf að finna bestu leiðirnar og undirbúa slíkt og komast sem fyrst í jarðgangabiðröðina. Ég get ekki spáð fyrir um hve langan tíma það gæti tekið og það eru örugglega margir annars staðar á landinu sem telja að nú sé komið að þeim með slíkar samgöngubætur.

En snúum okkur nú að stóra málinu sem leyst getur úr miklum vanda til lengri og skemmri tíma á öllu svæðinu en það er þjóðvegur 63 frá Bíldudal að vegamótum Vestfjarðavegar í Helluskarði. Leiðin frá flugvellinum á Hvassnesi (Hvarfsnesi) að vegamótum á heiðinni er tæpir 30 km og mest öll á láglendi. Mér skilst að búið sé að hanna þessa leið og því hægt að bjóða  verkið út með skömmum fyrirvara. Það hefði að sjálfsögðu mátt gera það samhliða framkvæmdum á Dynjandisheiðinni. Þörfin er augljós, enda styttir þetta leiðina suður um heila 50 km og um einn fjallveg að fara í stað þriggja eins og staðan er í dag. Ef kortið er skoðað þá má sjá að enginn staður á Vestfjörðum liggur eins vel við flutningum suður eins og Bíldudalur þegar farið er um Suðurfirði og í Arnarfirði eru stærstu laxeldissvæðin og vinnslan. Uppsveiflan sem nú er í Vestur Barðastrandarsýslu er að miklu leyti á Bíldudal þar sem stærsta laxeldisfyrirtæki landsins er og auk þess Kalkþörungaverksmiðjan. Unnið er að miklum og nauðsynlegum hafnabótum á staðnum og nýr vegur um Suðurfirði Arnarfjarðar mikilvægasta næsta skref til að treysta byggð á svæðinu.

Kortið frá Vegagerðinni frá því í gær 14. jan sýnir vel hvað er í gangi með umferðina um Hálfdán og Mikladal. En leiðin frá flugvellinum upp að vegamótum er lokuð!

Jörundur Garðarsson

Bíldudal

DEILA