Þurftu að keyra 300 km aukalega

Indriði Kristins BA í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipverjar á Indriða Kristins BA frá Tálknafirði þurftu að keyra um 300 km lengri leið en til stóð heim til sín á laugardaginn.

Magnús Guðjónsson skipstjóri var frekar súr yfir því að Dynjandisheiði var lokuð á laugardaginn eftir óveðursskotið á föstudaginn, en þá var komið gott veður og ágæt spá framundan.

Línubáturinn Indriði Kristins BA rær frá Bolungavík um þessar mundir og að sögn Magnúsar hefur verið góður afli. Á bátunum eru tvær áhafnir og á laugardaginn var skipt um. Þá kom að vestan áhöfn í stað þeirrar sem var að fara í frí. Þar sem Dynjandisheiði var lokuð urðu báðar áhafnirnar að aka lengri leiðina vestur til Tálknafjarðar um Djúpið, Þröskulda og Barðastrandarsýsluna. Sú leið er um 450 km en eftir opnun Dýrafjarðarganga er hægt að fara að vetri til milli og er það um 130 km. Munar liðlega 300 km á vegalengdinni.

Vegagerðin heldur nú í fyrsta sinn út snjómokstri á Dynjandisheiði og er mokstur alla virka daga en ekki um helgar.

Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði sagði í morgun að búið væri að opna heiðina, snjór væri lítill á heiðinni og veðrið  gott.

DEILA