Strandabyggð fær sérstakan fjárstuðning

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði fyrir áramót 458 milljonum króna til sveitarfélaga sem glíma við hvað mestu fjárhagserfiðleika vegna Covid-19 faraldursins.

Við úthlutun framlagsins var tekið tillit til lækkun útsvarstekna fyrir tímabilið apríl – október á árinu 2020 miðað við fyrra ár. Jafnframt var horft til tiltekinna framlaga Jöfnunarsjóðs sem höfðu lækkað frá upphaflegri áætlun, það er útgjaldajöfnunarframlagsins og framlag til að bæta upp lágar tekjur af fasteignaskatti.

Aðeins tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fengu framlag, Strandabyggð var úthlutað 11,5 milljónum króna og Ísafjarðarbær fékk 206 þúsund krónur. Samkvæmt þessu hefur kórónafaraldurinn ekki lækkað útsvarstekjur sveitarfélaganna á Vestfjörðum svo neinu nemur og að frátalinni Strandabyggð hefur lækkun umræddra framlaga úr Jöfnunarsjóði ekki valdið fjárhagsvanda.

Þau sveitarfélög sem verst hafa verið leikin af völdum covid19 eru Reykjanesbær  og hið nýja sveitarfélag Múlaþing. Reykjanesbær fékk 101 milljón króna í sérstakt framlag og Múlaþing 86 milljónir króna.

Önnur sveitarfélög sem fengu umtalsverða fjárhæð í stuðning eiga það sammerkt að ferðaþjónusta hefur verið stór atvinnugrein í þeim. Mýrdalshreppur fékk 49 mkr., Norðurþing 37 mkr., Skútustaðahreppur 34 mkr., Bláskógabyggð 27 mkr, Borgarbyggð 21 mkr of Suðurnesjabær 18 mkr.

DEILA