Sameining sveitarfélaga : sameining stærstu sveitarfélaganna ekki á dagskrá

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að ekki hafi verið rætt að því hann best viti með formlegum hætti sameining Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.

Bæjarins besta innti hann og forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar eftir því hvort sameining þessara sveitarfélaga hafi komið til athugunar með þeim rökum að sveitarfélögin eru samliggjandi og þau fjölmennustu á Vestfjörðum svo búast má við mestum ávinningi af sameiningu þeirra af þeim kostum sem mögulegir eru.

„Sjálfur væri ég ekki sannfærður um að það væri heppilegt næsta skref í sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum. Ég er spenntari fyrir því að horfa á eitt sveitarfélag á Norðanverðum Vestfjörðum. Það myndi gagnast íbúum mun betur.“

Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar sagði í svari sínu að Vesturbyggð hafi  ekki skoðað Ísafjörð sem mögulegan valkost í sameiningamálum.

„Þrátt fyrir að sveitarfélögin séu vissulega samliggjandi þá finnst okkur kannski grundvallaratriði í þessum hugleiðingum að hægt sé að komast nokkuð klakklaust á milli allt árið um kring en sú er því miður ekki staðan í dag.“

 

 

DEILA