Laxeldi í Djúpinu: álit Skipulagsstofnunar komið á umsókn Arctic Sea Farm

Skipulagsstofnun skilaði í gær áliti sínu á matsskýrslu Arctic Sea Farm sem sækir um leyfi fyrir 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi. Matsskýrslan var lögð fram 7. september 2020 og lögum samkvæmt skal Skipulagsstofnun gefa álit sitt innan fjögurra vikna.

Nú gengur umsóknin til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar sem gefa út rekstrarleyfi og starfsleyfi fyrir eldið.

Í áliti Skipulagsstofnunar segir varðandi mögulega erfðablöndun að áhrif eldisins á þá laxastofna sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar nái til verði óveruleg, en það geti hins vegar haft nokkuð eða talsverð neikvæð áhrif þegar horft er til laxastofna í ám á Vestfjörðum sem geyma litla laxastofna. Ekki kemur fram hvaða ár þar er um að ræða.

Áhrif laxeldisins á sjúkdóma eru talin verða óveruleg en geti aukið laxalúsaálag á villta laxastofna í Djúpinu og að áhrifin geti orðið neikvæð. Áhrif á rækjuveiðar eru taldar verða óveruleg. Sama á við um áhrif á fuglalíf. Hins vegar telur stofnunin að áhrifin af eldinu í Djúpinu eigi eftir að verða talsvert neikvæð á ásýnd Ísafjarðardjúps og upplifun ferðamanna.

DEILA