Laugaból í Arnarfirði til sölu

Laugaból í Arnarfirði.

Jörðin Laugaból í Arnarfirði hefur verið sett á sölu. Laugaból er í Ísafjarðarbæ og hefur verið afskekkt vegna erfiðra vetrarsamganga en það breyttist með Dýrafjarðargöngunum. Laugaból er á norðanverðu Langanesi beint á móti Hrafnseyri.

Þar hefur verið mikil uppbygging frá árinu 2000 sem ekki hefur farið hátt en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá fasteignasölunni er 270 fermetra íbúðarhúsið afar glæsilegt. Þar er einnig sundlaug 20 x 7,5 metrar, hesthús, hlaða og 1200 fermetra reiðskemma. Byggður var stór skeiðvöllur, með 350 metra braut og 400 metra hring. Ljósleiðari er tengdur við bæinn.

Brunabótamat eignanna er nærri 300 milljónir króna og fasteignamat 58 milljónir króna.

Líklega kemur að mörgum Vestfirðingnum þessi mikla uppbygging á óvart á svona afskekktum stað og vonandi verður jörðin áfram í ábúð.

DEILA