Landvernd: engar nýjar virkjanir í hálendisþjóðgarðinum

Með stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands er verið að vernda eina stærstu auðlind landsins og stýra umgengni og nýtingu á henni. Að mati stjórnar Landverndar er ekki til farsælli leið til að ná markmiðum um vernd og sjálfbæra nýtingu.  Með stofnun þjóðgarðs er á trúverðugan hátt unnið í samræmi við fræðilega þekkingu og haldgóða reynslu hér heima og erlendis frá. 

Engar nýjar virkjanir

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd. Þar segir að stjórn Landverndar styðji frumvarp um hálendisþjóðgarð en telur að það yrði til bóta að gera á því nokkrar breytingar.  Meðal annars að stjórnunar og verndaráætlanir verði bindandi við skipulagsgerð, að engar nýjar virkjanir rísi í þjóðgarði og að almannarétturinn og frjáls för fólks verði meginregla  fyrir ferðalög í þjóðgarði.  

Hálendisþjóðgarður er umbótaverkefni

Stjórn Landverndar fagnar því að þetta mikilvæga umbótaverkefni sem vernd náttúru- og menningarminja á hálendinu er, sé komið til meðferðar á Alþingi Íslendinga.  Mjög margt hefur verið sagt og ritað um Hálendisþjóðgarð undanfarna mánuði.  Því miður virðist of oft gæta misskilnings á því hvað felst í því að skilgreina landssvæði sem þjóðgarð.  Vonandi verður frekari umfjöllun til að bæta úr því.

Stjórn Landverndar vonar og treystir að Alþingi fari vel yfir alla athugasemdir og geri á frumvarpinu þær breytingar sem eru nauðsynlegar eru taldar, og samþykki það með góðum stuðningi.  Það yrði Íslendingum til heilla og vegsauka. 

DEILA