5 snjóflóð í Önundarfirði í nótt

Fimm snjóflóð féllu í Önundarfirði í nótt samkvæmt því sem fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Öll voru þau þurr flekaflóð og fóru yfir veg.  Þrjú þeirra voru á Selabólshlíð, eitt við Innra Hvilftarhorn og það fimmta  í Bæjargili ofan neðra Breiðadals. Stærð þeirra var 2,5 – 3.

Síðustu 10 daga hafa verið tilkynnt 57 snjóflóð á Vestfjörðum.

Í gær voru skráð tvö snjóflóð í Skutulsfirði, við Funa og Kirkjubæ og tvö flóð á Patreksfirði, annað ofan Sigtúns og hitt við Vatneyri. Stærð þeirra var 2 og öll voru þau þurr flekaflóð.

Flokkun flóðanna er þannig að stærð 2 er snjóflóð sem getur grafið mann og er með 100 tonna massa og stærð 3 er snjóflóð sem getur grafið og eyðilagt fólksbíl, grafið vörubíl, skemmt hús eða eyðilagt minni byggingar og massinn er 1000 tonn.

DEILA