Vegna umræðna Fiskikóngsins

Vegna umræðunnar sem  Fiskikóngurinn hefur sett af stað um ómerktar afurðir langar mig að benda á hina hlið málsins. Við bræðurnir höfum verið með Harðfiskverkun  Finnboga á Ísafirði undanfarin ár, fyrir nokkrum árum komu fulltrúar frá MAST og voru í átaki til að allir harðfiskverkendur uppfylltu kröfur MAST og fengju IS númer. Töldum við ekkert annað að gera en uppfylla allar kröfur MAST fyrst þessi rassía var í gangi, en fljótlega tókum við eftir því að þessi rassía hafði byrjað og endað hjá okkur.

Fyrir tveimur árum spurðum við eftirlitsmanninn að því hve margir harðfiskframleiðendur á Vestfjörðum væru með leyfi og voru þeir þá tveir, við og Íslandssaga  á Suðureyri.  Þessi mismunun getur auðvitað ekki gengið, síðast þegar eftirlitsmaðurinn kom sem var í september var reikningurinn 74.000 kr og er reikningurinn yfirleitt á þessu róli.

Fyrir nokkrum árum varð slys á Flateyri þar sem kona slasaðist illa á hendi í barningsvél, nokkrum dögum síðar kom maður frá Vinnueftirlitinu og gerði kröfur um úrbætur á barningsvélunum hjá okkur, kostnaður við það varð 1.200 þúsund krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Það er náttúrulega gott að vera með öruggari vélar og að málum sé fylgt eftir, en síðan hef ég séð barningsvélar hjá harðfiskframleiðendunum sem hafa engin leyfi, alveg opnar og með engum öryggisbúnaði.  Þá er einnig vigtareftirlit einu sinni á ári og eftirlit frá Heilbrigðiseftirlitinu sem kostar allt einhverja peninga.

Í gegnum tíðina höfum við verið að styrkja ýmis félög hérna í bænum og víðar, t.d. vorum við með auglýsingaspjald  við fótboltavöllinn til styrktar BÍ sem kostaði  70.000 kr á ári, en svo fór BÍ yfirleitt í fjáröflun á Þorranum að selja harðfisk. Hinsvegar komu þeir ekki endilega til okkar heldur versluðu við „svörtu“ framleiðendurna sem voru ódýrari, enda enginn virðisaukaskattur eða eftirlitsgjöld hjá þeim.

Vegna umræðunnar undanfarið vil ég segja sögu af samskiptum við fiskibúð, sem hefur oft keypt harðfisk hjá okkur og allt í fína með það.  Fyrir nokkrum árum hafði hann ekki pantað þó nokkuð lengi á meðan hægt var að fá ódýrari harðfisk „svart“ annarsstaðar. Loks hringir fiskibúðarstjórinn og pantar ýsu og steinbít, það var nóg til af ýsu en steinbíturinn var búinn. Þá segir hann „það þýðir ekkert að eiga bara fisk stundum“.   Það er semsagt gömul saga og ný að það er gott að versla annarsstaðar ódýrt þegar það hentar en við áttum alltaf að eiga vara lager kláran, þegar „svarti“ fiskurinn kláraðist.

Nú höfum við bræður selt Harðfiskverkunina, og kaupandinn var með hugmyndir um að selja harðfiskafskurð í gæludýrabúðir og talaði við starfsmann MAST,  starfsmaður MAST  sagði honum að þá þyrfti hann nýtt vinnsluleyfi og nýja gæðahandbók. Gæðahandbókin sem er núna um 50 blaðsíður, sem ég fékk utanaðkomandi aðstoð við að gera. Sem sagt nýtt leyfi og ný gæðahandbók til að fá leyfi til að selja afskurð af vöru með leyfi til manneldis sem dýrafóður.

Fyrir nokkrum árum fór ég á HACCP gæðastjórnunarnámskeið og þar var mér kennt að gæðin ættu að vera slík að öruggt væri að geimfarar fengju ekki í magann ef þeir tækju matinn með sér til tunglsins, það væri kannski spurning að slaka aðeins á kröfunum til smáframleiðenda, en að þeir væru þá ekki að selja kost í geimferðir,  þótt ég myndi telja harðfisk  mjög góðan kost  á tunglinu.

Það er sjálfsögð krafa að það sé eftirlit til að tryggja gæði, öryggi og hreinlæti og merkingar matvæla til að neytendur hafi fullvissu um að framleiðsluaðferðirnar séu í lagi. Hins vegar þarf að tryggja að eftirlitskostnaðurinn sé ekki  óyfirstíganlegur fyrir litla framleiðendur og að allir framleiðendur á Íslandi sitji við sama borð.

Þökkum viðskiptin á liðnum árum og óskum ykkur gleðilegrar hátíðar.

Gunnlaugur Ármann Finnbogason

Ísafirði

 

DEILA