V-Barð: Bæjarbjargið ekki þjóðlenda

Kort sem sýnir þjóðlendur í Barðastrandarsýslu eftir úrskurð Óbyggðanefndar.

Óbyggðanefnd kvað í gær upp úrskurði í þjóðlendumálum í Barðastrandarsýslum, málum nr. 1–4/2020. Niðurstöður nefndarinnar eru að hluti Þingmannaheiðar og Hvannahlíð í Þorskafirði séu þjóðlendur. Jafnframt var Hvannahlíð úrskurðuð í afréttareign íslenska ríkisins.

Aftur á móti hafnaði óbyggðanefnd kröfum íslenska ríkisins um að Bæjarbjarg (sem er hluti Látrabjargs) , landsvæði í Vatnsfirði og Kjálkafirði, Skálmardalsheiði og Þingmannaheiði að öðru leyti væru þjóðlendur.

Kröfur ríkisins um þjóðlendur í sýslunni  náðu til fimm svæða sem eru í kröfulýsingunni nefnd Hvannahlíð, Skálmar­dals­heiði, Auðshaugsland, Vatnsfjörður og Bæjarbjarg en tvö þau fyrstnefndu eru í Reykhólahreppi og hin þrjú innan marka Vesturbyggðar.

 

Í málunum voru lögð fram alls 1.786 skjöl, að meðtöldum hliðsjónargögnum. Við meðferð málanna var lagt mat á öll fram komin gögn, ágreiningssvæðin skoðuð í vettvangsferð, málin flutt munnlega og skýrslur teknar af aðilum og vitnum.

Óbyggðanefnd var komið á fót árið 1998 í þeim tilgangi að rannsakað yrði hvaða svæði á landinu væru utan eignarlanda og þau yrðu úrskurðuð þjóðlendur. Einnig hefur nefndin það hlutverk að úrskurða um afmörkun afrétta innan þjóðlendna og önnur eignarréttindi í þjóðlendum.

Svæði 10C er fjórtánda svæðið af sautján sem óbyggðanefnd úrskurðar um og nefndin hefur nú lokið málsmeðferð á 91% af meginlandinu. 40,6% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 59,4% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum 1–10A og 10C er 27.328, að meðtöldum framlögðum hliðsjónargögnum.

 

DEILA