Litið aftur, svo fulla ferð áfram

Ég sat ein í bílnum, í röðinni, og leið eins og krakka á aðfangadag. Slíkur var spenningurinn. Varð svo rígmontin þegar vegamálastjóri vitnaði í nýlega grein mína í ávarpi sínu sem ómaði í útvarpinu. Þrátt fyrir Covid tókst opnun Dýrafjarðarganga alveg ljómandi vel og skein gleðin úr andlitum nágranna minna af suðurfjörðum og Barðaströnd þegar við mættumst í Dýrafjarðargöngum. Loksins voru þau tilbúin og var opnunin einn af hápunktum ársins. Allavega fyrir mig sem Vestfirðing. Leiðin á milli suður og norður Vestfjarða er þó langt frá því að vera fullkomin, enda þurfum við að fara um fjallveg sem er malarvegur í þokkabót, yfir Dynjandisheiðina. Við getum þó huggað okkur við að heiðin er á núverandi samgönguáætlun og á framkvæmdum að ljúka 2024.

Öðrum merkis áfanga var náð á Vestfjörðum á árinu 2020 en það voru langþráð málalok Teigsskógarmálsins. Stjórnsýsluflækjan ógurlega. Margbúið að reyna höggva á hnútinn án árangurs, en svo þegar hún hafði þvælst um í stjórnsýslunni í tæp 20 ár losnaði hún þegar komið var á endastöð kerfisins. Vegagerðin bauð hluta verksins út um leið og voru vegavinnumenn byrjaðir í nóvember á 7 km kafla í Gufudalssveit. Það verður erfitt fyrir sveitarstjórnafólk og starfsfólk Vestfjarðarstofu að venja sig af því að berja í borð og krefjast vegar um Teigsskóg á fundum okkar með þingmönnum og ráðherrum.

Meiri fjárfesting í innviðum

Dýrafjarðargöng og Teigskógur, hvort tveggja eru sjálfsögð grunngerðarmál sem hefur verið barist fyrir lengi. Allt of lengi. Það þarf að fjárfesta miklu meira í innviðum á Vestfjörðum og það er ekki ásættanlegt að bíða í fjölda ára eftir því. Grunngerðin þarf að styðja við verðmætasköpunina sem er á svæðinu og það mun borga sig margfalt til baka á komandi árum. Það er því kaldhæðnislegt að hugsa til þess að núna þegar nánast er offramboð af raforku þá komum við henni ekki inn á Vestfirði því innviðirnir eru ekki til staðar. Það voru því vonbrigði þegar Hvalárvirkjun var sett á ís, því þar höfðum við loksins tækifæri til að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Biðin og baráttan í raforkumálum á Vestfjörðum heldur því áfram.

Fleiri samstarfsverkefni, aukin margfeldisáhrif

Það verður þó ekki hjá því komist að minnast á Covid heimsfaraldurinn þegar farið er yfir árið 2020. Covid gerði það að verkum að ferðaþjónustan og í raun stór hluti atvinnulífsins er á viðkvæmum stað. Á sama tíma urðu sveitarfélögin fyrir töluverðum tekjumissi. Árið 2020 er því búið að vera erfitt ár fyrir atvinnulífið og þar af leiðandi erfitt fyrir sveitarfélögin. Það verður svo skýrt þegar samdráttur er hversu mikilvægt er að atvinnulífið, sveitarfélög og stjórnvöld vinni saman að þeim viðsnúningi sem þörf er á. Hér er ekki hægt að horfa til skamms tíma. Það þarf að styðja margfalt betur við þau fyrirtæki sem eru hér á svæðinu og skilgreina hvernig sá stuðningur getur verið með reglulegu samtali. Það þarf nýjar nálganir. Samstarfsverkefnið Blámi getur verið dæmi um slíkt, en vafalaust leynast hugmyndir að verkefnum víðar sem gætu skapað margfeldisáhrif.

Nýsköpun og einfaldari stjórnsýsla

Með því að gera upp árið sem er að líða reikar hugurinn ósjálfrátt að verkefnum næsta árs. Eitt af þeim er Blámi, samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu og ég get ekki leynt því hversu spennt ég er fyrir því. Markmiðið með verkefninu er að efla orku- og loftslagstengda nýsköpun, styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum og styðja við þróun orkuskiptaverkefna. Nú þegar hafa tvö störf tengd verkefninu verið auglýst og verður gífurlega áhugavert að sjá hvernig það þróast. Verkefni eins og Blámi standa þó og falla með samvinnu fyrirtækja og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Jafnframt kemur upp í hugann árangur ársins og hversu merkilegum áföngum við höfum náð. En á sama tíma hugsa ég að þeim hefði fyrir löngu átt að vera náð. Það er aðkallandi viðfangsefni að stytta þann viðbragðs- og athafnatíma sem fyrir finnst í öllu kerfinu gagnvart málefnum Vestfjarða. Í raun gagnvart öllum þeim byggðarlögum sem eru hvað lengst frá ákvörðunarvaldinu. Hlutirnir taka einfaldlega of langan tíma. Skrifræðið og stjórnsýslan virðast vera minna skilvirk í þessum málum þó að okkur fleygi áfram upplýsingatæknilega séð. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Umfram allt – samvinna

Árið 2020 hefur farið í að finna leiðir til að þrauka, ígrunda hvað það er sem skiptir okkur máli og örsjaldan að leyfa okkur að hugsa til framtíðar, til betri tíma. Verkefnið okkar sveitarstjórnamanna er að aðstoða við að endurreisa atvinnulífið og samfélögin okkar. Sú vinna verður miklu árangursríkari ef samstaða er til staðar. Með því að ganga í takt. Sveitarfélög, atvinnulíf og íbúar. Aðeins þannig verða áfangasigrarnir fleiri og á skemmri tíma. Vestfirðingum og Íslendingum öllum til heilla.

Ég óska Vestfirðingum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Hafdís Gunnarsdóttir

Formaður Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga

 

 

 

 

DEILA