Landeigendur við Breiðafjörð andmæla frekari friðun Breiðafjaðar

Landeigendur og eyjabændur í Breiðafirði hafa sent frá sér umsögn sína um tillögur Breiðafjarðanefndar um framtíð Breiðafjarðar. Í tillögunum er lagt til að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða, þar sem um er að ræða eitt mikilvægasta fuglasvæði landsins, og að skoðað verði að skilgreina Breiðafjörð, að hluta til eða öllu leyti, sem þjóðgarð. Þar væri mögulegt fyrsta skref að stofna Þjóðgarð í sjó þar sem ríkið fer með eignarhald utan netlaga. Þá er lagt til að hafinn verði undirbúningur að tilnefningu Breiðafjarðar á Heimsminjaskrá UNESCO.

Í umsögn Ásgeirs Gunnars Jónssonar eyjabónda er lýst fullri andstöðu við til tillögurnar, að því undanskyldu að hann tekur jákvætt í þær hugmyndir um að tímabært sé að endurskoða lög um vernd Breiðafjarðar.

Með tillögunum er verið færa stjórnsýslu frá heimamönnum til stofnana á höfuðborgarsvæðinu og það sem enn verra er út fyrir landsteinana til fjölþjóðlegra stofnana og samtaka, segir Ásgeir Gunnar í umsögn sinni og að því muni fylgja tilheyrandi takmarkanir á athafna- og atvinnufrelsi frá því sem nú er.

Hann segir að tveimur lykilspurningum hafi ekki verið svarað:

  1. Hver er þörfin fyrir Ramsar, UNESCO og Þjóðgarð?
  2. Hverjar verða hugsanlegar takmarkanir á frelsi íbúa og fyrirtækja til athafna í leik og starfi vegna þeirra leiða sem nefndin leggur til?

Sams konar athugasemdir eru í umsögn Gunnars Ásgeirssonar sem einnig er eyjaeigandi í Breiðafirði. Gunnar bætir því við að hann eigendur og ábúendur Breiðafjarðareyja hafi nytjað hlunnindi þeirra um aldir í sátt við umhverfið. „Ég sé engin rök fyrir því að kalla yfir okkur stofnannavald „að sunnan“  eða jafnvel utan úr heimi   og refsingar.“

 

 

DEILA