Ísafjörður: engin friðarganga í kvöld

Frá friðargöngu á Ísafirði 2018. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Friðarsinnar á Ísafirði munu ekki halda skipulagða friðargöngu á Þorláksmessu í ár eins og gert hefur verið um langt árabil en þess í stað kveikja á friðarkerti.

Í tilkynningu frá þeim segir:

„Þar sem enn er samkomubann mun ekki verða skipulögð friðarganga á Ísafirði á Þorláksmessu. Það eru sannarlega næg tilefni til að minna okkur á mikilvægi þess að berjast fyrir friði í heiminum og hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum þó að við komum ekki saman. Við hvetjum alla til að minnast þess að friður er ekki sjálfgefinn. Það þarf að vera vakandi fyrir því hvernig samfélag við byggjum upp og hvað hægt er að gera til að hafa áhrif víðar en í sínu næsta umhverfi. Ef við stöndum saman getum við haft áhrif.

Við ætlum að kveikja á friðarkerti við útidyrnar okkar annað kvöld og það væri gaman að sjá mörg slík kerti.“

DEILA