Bolungavík: kostnaður við grunnskóla vaxið langt umfram tekjur

Samkvæmt yfirliti yfir kostnað við rekstur Grunnskólans í Bolungavík, sem Bæjarins besta hefur fengið frá Bolungavíkurkaupstað, og yfirlit yfir tekjur sem fylgdu verkefninu þegar það var flutt frá ríki til sveitarfélaga á sínum tíma vantar tekjur fyrir um fjórðung af útgjöldunum á áraunum 2015-2019.

Rekstur grunnskóla var stóra verkefnið í miklu átaki um sameiningu sveitarfélaga sem ríkið stóð fyrir 1993 og var það flutt frá ríki til sveitarfélaga 1996. Fengu sveitarfélögin hluta af tekjuskattinum sem breytt var í útsvar til þess að standa straum af kostnaðinum. Stærstur hluturinn rennur beint til hvers sveitarfélags í gegnum útsvarsprósentuna  en hluti tilfærslunnar fer til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem dreifir því til þeirra í samræmi við aðstæður svo þeu geti öll staðið undir rekstri skólanna.

Tekjur Bolungavíkurkaupstaðar til þess að standa undir rekstri grunnskólans hafa verið frá 71% upp í 76% af kostnaðinum síðustu ár.  Kostnaðurinn hefur verið frá 61 – 74 milljónir króna á hverju ári  umfram tilgreindar tekjur. Samtals nemur umframkostnaðurinn 310 m.kr. á þessum 5 árum.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að í sjálfu sér segði þessi staða ekkert um að samkomulagið sem gert var 1996 milli ríkisins og sveitarfélaganna hafi verið sveitarfélögunum óhagstætt. Þróunin sem orðið hafi síðan í skólastarfinu sé mikil, starfsmönnum hafi fjölgað og fjölmargir nemendur hafi verið greindir með þörf fyrir sérþjónustu. Sveitarfélögin vilji veita sem besta þjónustu en það kosti peninga.

Jón Páll segir að önnur sveitarfélög á landinu búi við svipaða fjárhagsútkomu af rekstri grunnskólans og nauðsynlegt sé að ríkið og sveitarfélögin taki upp viðræður um fjárhagshliðina með það fyrir augum að styrkja fjárhag  sveitarfélaganna.

Viðbrögð Reykjavíkurborgar hafa vakið athygli en borgin hefur gert kröfu um að Jöfunarsjóður sveitarfélaganna greiði borginni milljarða króna m.a. vegna halla borgarinnar af rekstri grunnskólans  og hótar málarekstri fyrir dómstólum. Fyrir liggur sú afstaða ríkisins , sem kemur fram í ársskýrslu Jöfnunarsjóðsins, að það sem Reykjavíkurborg fengi úr Jöfnunarsjóðnum yrði fengið með því að skerða framlög til annarra sveitarfélaga. Það myndi auka á vanda þeirra.

Rekstur grunnskóla 2016 2017 2018 2019 Samtals
Kostnaður 1 239,1 261,9 282,7 290,8 1.295,4
Kostnaður 2 223,2 251,9 264,2 268,3 1.212,1
Útsvarsstofn 3.477,5 3.655,9 4.103,2 4.330,9
Fjármögnun
2,33% af útsvarsstofni 81,0 85,2 95,6 100,9 436,6
Jöfnunarsjóður 80,8 92,8 103,6 103,4 464,9
161,8 178,0 199,2 204,3 901,5
Ófjármagnað 61,4 73,9 65,0 64,0 310,6
Hlutfall fjármögnunar 73% 71% 75% 76% 74%

 

Kostnaður 1 er allur nettókostnaður við rekstur grunnskólans með mötuleyti og dægradvöl. Kostnnaður 2 er afmarkaður nettó kostnaður.

DEILA