Bláma ýtt úr vör

Landsvirkjun, Vestfjarðastofa og Orkubú Vestfjarða hafa sett á laggirnar samstarfsverkefni um orkuskipti og orkutengda nýsköpun. Verkefnið hefur hlotið nafnið Blámi og var skrifað undir samstarfssamninginn í dag.

Meginmarkmið Bláma er að efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna. Með orkuskiptum er átt við að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Markmiðið er að ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum. Þetta er þriðja svæðisbundna samstarfsverkefnið sem Landsvirkjun hefur komið á fót að undanförnu ásamt samstarfsaðilum, en fyrir eru EIMUR á Norðurlandi og Orkídea á Suðurlandi.

Ýtt undir hringrásarhagkerfið

Ætlunin með Bláma er að leiða saman aðila sem geta unnið saman við það að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. Með nýjum tækifærum og auknu samstarfi á milli fyrirtækja og opinberra aðila er hægt að ýta undir að verkefni og tækifæri sem skapast á svæðinu þróist í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun úr vannýttu hráefni er aukin, bæði úr því sem er til staðar og því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu.

Samstarfsverkefnið hefur að leiðarljósi að byggja á svæðisbundnum styrkleikum og þeim innviðum, fyrirtækjum, aðföngum og mannafla sem til staðar eru og mynda frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og aukna verðmætasköpun. Ráðgert er að búið verði að ganga frá ráðningu framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra fyrir verkefnið snemma á nýju ári og verða stöðurnar auglýstar innan skamms.

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs Landsvirkjunar:

„Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því stóra verkefni að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem við höfum sett okkur. Í því felast áskoranir, en einnig mikil tækifæri, því orkuskipti geta með tímanum leitt til fulls orkusjálfstæðis Íslands. Með því að verða meðal fyrstu ríkja til að verða jarðefnaeldsneytislaus getum við stóraukið samkeppnishæfni útflutningsgreina sem byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda í sjó og á landi. Slíkri vegferð myndu að líkindum fylgja mikil nýsköpun og fjölbreytt störf.

Verkefni af þessari stærðargráðu krefst samstarfs margra ólíkra aðila. Við hlökkum til að vinna  að þróunarverkefnum í orkuskiptum á Vestfjörðum, en þar eru kjöraðstæður til að prófa nýja tækni eins og vetni og aðra orkubera í framleiðslu og flutningum á sjó og landi.“

Hafdís Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Vestfjarðastofu og fjórðungssambands Vestfirðinga:

„Við fögnum þeirri nýjung sem felst í stofnun samstarfsverkefnisins Bláma og teljum það vera í góðu samræmi við framtíðarsýn svæðisins sem mörkuð var í Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024 sem er að Vestfirðir séu framúrskarandi svæði til að búa, starfa, heimsækja og njóta hreinnar náttúru og kyrrðar. Þar er öflugt, vaxandi alþjóðlegt þekkingarsamfélag sem einkennist af kraftmikilli sköpun, sterkri sjálfsmynd og umhverfisvitund. Góðir innviðir, öflug samfélagsleg þjónusta og fjölbreytt atvinnulíf sem einkennist af virðingu fyrir umhverfi, samfélagi og auðlindum. Á meðal stefnumála í Sóknaráætlun er að auka umhverfisvitund íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja og bæta aðgengi að sjálfbærum lausnum og draga úr sóun auk þess að auka verðmætasköpun, efla nýsköpun og fjölga hátæknifyrirtækjum á svæðinu. Verkefnið fellur einnig vel með áherslum umhverfisvottaðra Vestfjarða. Við teljum stofnun Bláma gera okkur kleift að nýta þau sóknarfæri sem eru til staðar með því að hvetja til aukins samstarfs og nýsköpunar.“

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:

„Á Vestfjörðum hafa á undanförnum árum skapast ný sóknarfæri í atvinnulífi. Á sama tíma hefur miklum fjármunum verið varið í uppbyggingu innviða á svæðinu. Það skapar enn ný tækifæri til uppbyggingar á Vestfjörðum.


Orkubú Vestfjarða telur mikilvægt að taka þátt í verkefni á borð við Bláma sem gefur möguleika á samstafi t.d. við þróun grænna lausna í orkuskiptum. Mikil tækifæri eru einmitt núna til að nýta nýja tækni til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis t.d. við fiskeldi, flutninga og samgöngur. Gott samstarf við fyrirtækin á Vestfjörðum er lykilþáttur í að vel megi takast til í starfsemi Bláma.“

 

 

DEILA