Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum

Háskólasetur Vestfjarða og frumkvöðlafyrirtækið Austan mána hafa hlotið styrk frá Rannís úr Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana 2020 fyrir verkefnið “Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum.” Þetta eru góðar fréttir fyrir núverandi og tilvonandi nemendur í Sjávarbyggðafræði því möguleiki er á fjármögnun meistaraprófsritgerða úr verkefninu.

Alls bárust 68 umsóknir í markáætlunina en aðeins sjö verkefni hlutu styrk og var verkefni Háskólaseturs það eina sem fékk styrk í flokknum Líf og störf í heimi breytinga.

Verkefnastjórar eru þeir dr. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranámsins í sjávarbyggðafræði við Háskólasetrið og Arnar Sigurðsson hjá frumkvöðlafyrirtækinu Austan mána, en hann kennir jafnframt námskeiðið Nýsköpun og frumkvöðlastarf í meistaranáminu. Auk þeirra situr í stjórn verkefnisins Magdalena Falter, doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Dreifðar byggðir Íslands eiga frekar á hættu að missa störf vegna þróunar tengdri fjórðu iðnbyltingu en höfuðborgarsvæðið. Á sama tíma mælist vistkerfi nýsköpunar minna þar en í kringum borgina. Verkefnið gengur út á að rannsaka hvernig hægt sé að hlúa að vistkerfum nýsköpunar í dreifðari byggðum, til þess að leggja grunn að seiglu og samfélagi án aðgreiningar.

Verkefnið samanstendur af sjö hlutum, þ.á m. rannsóknum sem verða framkvæmdar af Háskólasetrinu. Einn hlutinn felur í sér fjármögnun meistaraverkefna nemenda í Sjávarbyggðafræði. Nemendur fá því tækifæri til að taka þátt í þeim hluta verkefnisins sem ber yfirskriftina Uppbygging vistkerfis nýsköpunar í dreifðum byggðum undir handleiðslu Matthiasar Kokorsch.

DEILA