Breiðafjörður: Andmæla hugmyndum um þjóðgarð í sjó

Frá kynningarfundi um framtíð Breiðafjarðar sem haldinn var í Tjarnalundi í Saurbænum á síðasta ári.

Á morgun rennur út frestur til að skila athugasemdum við skýrslu Breiðafjarðanefndar um framtíðarsýn svæðisins. Nefndin leggur til að umhverfisráðherra beiti sér fyrir því að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða, þar sem um er að ræða eitt mikilvægasta fuglasvæði landsins, og að skoðað verði að skilgreina Breiðafjörð, að hluta til eða öllu leyti, sem þjóðgarð. En þar sem eignarhald á svæðinu er flókuð er ólíklegt að náist á næstu áratugum. Telur nefndin því  rétt að skoða möguleika á að skipta svæðinu í undirsvæði þar sem mismunandi reglur gilda.

Þjóðgarður í sjó væri mögulegt fyrsta skref þar sem ríkið fer með eignarhald utan netlaga.

Þá  væri að mati nefndarinnar næst fýsilegt að horfa til norðanverðs fjarðarins og mögulegrar tengingar við fyrirhugaðan þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum, sem nær meðal annars til  Vatnsfjarðar en hann er friðland og hluti af verndarsvæði Breiðafjarðar.

Að þessum skrefum stignum væri lokaskrefið að tilnefna Breiðafjörð á Heimsminjaskrá UNESCO segir í tillögum Breiðafjarðanefndar sem kynntar voru í síðasta mánuði.

Samtök selabænda hafa sent inn athugasemdir sínar við áformin og lýsa þau megnri andstöðu við tillögurnar.

Sérstaklega er andstöðunni beint gegn því að Breiðafjörður verði skilgreindur sem  þjóðgarður í sjó , að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista yfir Ramsasvæði og að undirbúningur verði hafinn að tilnefndingu Breiðafjarðar á heimsminjaskrá UNESCO.

Segir í umsögn samtaka selabænda að vont sé að færa íhlutunarvald frá heimamönnum til stofnana á höfuðborgarsvæðinu en enn verra sé að fara með það vald til alþjóðlegra stofnana.

Spurt er fyrir hverja Breiðafjarðanefndin sé að vinna og hvort einhver hafi beðið um þetta. „Varla bændur sem hafa gætt lífríkis Breiðafjarðar í þúsund ár.“

 

DEILA