Þingeyri: samþykkt að auglýsa Sólsetrið

Bæjarstjón Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi og greinargerð fyrir Sólsetrið, Þingeyri.

Fyrirhugað er að afmarka 3000 fermetra lóð við Vallarstræti á Þingeyri og er lóðin innan þéttbýlis Þingeyrar. Markmiðið með deiliskipulagstillögunni er að auka aðdráttarafl svæðisins og stuðla að og auka útivistargildi þess, með gerð ,,áfanga-”, „ferðamanna-“ og „upplifunarstaðar“.

Verkið, sem verðu að hámarki 600 m2 með 12 m hámarkshæð, verður opið öllum almenningi, í þeim tilgangi að tengja við og njóta náttúru staðarins, landi, fjöru, hafi og sól og samspili þessara þátta. „Sólsetrið” mun jafnframt ramma inn sólarlagið í Dýrafirði.

Sótt verður um styrk til verkefnisins í byggðaáætlun. Gert er ráð fyrir að ljúka framkvæmdum fyrir lok árs 2022. Kostnaður er á þessu stigi áætlaður 200 milljónir króna.

DEILA