Skutulsfjörður: útvistarsvæði skipulögð

Lögð hefur verið fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar skýrsla frá SE-Groops sem unnin var á vegum starfshóps um skipulag útivistarsvæða í Tungudal, Dagverðardal og Seljalandsdal og minnisblað Gunnars Páls Eydals, f.h. Verkís.

Fram kemur í minnisblaðinu að markmið verkefnisins er að leggja drög að skipulagi heilsárs útivistarsvæða í Skutulsfirði.  Ísafjarðarbær fékk erlenda ráðgjafa til að greina möguleg tækifæri fyrir skíðasvæðið sem framangreind skýrsla SE – groups. Því lagði starfshópurinn ekki áherslu á það í sinni vinnu.  Ekki fór fram kostnaðarmat á einstökum
framkvæmdum eins og til stóð i upphafi verks.

Í minnisblaðinu er samantekt úr viðtölum við hagsmunaaðila. Rætt var við Ferðafélag ísafjarðar, Skotíþróttafélag Ísafjarðar, HSV og æfingahópa, Skógræktarfélag Ísafjarðar, rekstraraðila tjaldsvæðisins í Tungudal, Skíðafélag Ísafjarðar, Hjólreiðadeild Vestra, Riddara Rósu, blakdeild Vestra, Skíðasvæði Ísafjarðar, Ferðamálasamtök Vestfjarða og Hestamannafe´lagið Hendingu.

Meðal þess sem fram kom í viðtölunum má nefna áherslur frá Riddurum Rósu sem hafa áhuga á að tengja Seljalandsdal við Tungudal/Dagverðardal og að settar verði upp hreystistöðvar sem nýst geta á æfingum. Stígur um Sundstræti í framhaldi af Fjarðarstrætisstígnum væri mjög góð viðbót.

Blakdeild Vestra  sér fyrir sér að Tungudalur verði samkomustaður fyrir þá sem vilja stunda íþróttir og útivist en einnig skemmtilegt leiksvæði fyrir fjölskyldur.

Ferðamálasamtök Vestfjarða  telja mikilvægt er að hafa samfellu í stígakerfi, t.d. væri flott að hafa leið frá Króki inn í Dagverðardal sem væri hægt að ganga, hjóla og fara á gönguskíðum.

Skógræktarfélagið hefur áhuga á áframhaldandi skógrækt í Skutulsfirði. Félagið sér fyrir sé þessa staði:
– Milli Grænagarðs og Engis, niður að Seljalandsvegi.
– Hafrafellsháls og tengja við skóginn ofan Stórholts

– Frá þjóðvegi í Tungudal og að göngustíg sem liggur að Tungudalsvirkjun, jafnvel nær      Tunguá.
– Ofan og utan við Hjallaveg.
– Stækkun á Síðuskógi, innan við Seljaland í átt að sumarhúsasvæði.
– Félagið vill einnig leggja stíg í Tungudal, með brú yfir Tunguá, í samstarfi við Ísafjarðarbæ

 

 

DEILA