Reykjavíkurborg krefst 6 milljarða króna greiðslu frá ríkinu

Frá Reykjavík.

Í desember 2019 sendi Reykjavíkurborg bréf til Fjármálaráðuneytisin og krafðist þess að ríkið greiddi borginni 5.860 milljónir króna auk vaxta. Er krafan byggð á því að borgin hefði átt rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árin 2015-2018 vegna tekjujöfnunar, reksturs grunnskóla og til nýbúafræðslu.

Þá er gerð krafa um að útgjaldajöfnunarframlag til borgarinnar fyrir þessi ár verði endurreiknuð og hækkuð  og að borginni verði einnig úthlutað  framlagi vegna lækkunar tekna af fasteignasköttum.

Þá er loks krafist að borgin hljóti framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til jafns við önnur sveitarfélög þar með talið fyrir 2019.

Borgarlögmaður segir í niðurlagi kröfubréfsins til Fjármálaráðuneytisins að fara þurfi fram gagnger endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og lagalegum grundvelli sjóðsins  með það að leiðarljósi að jafnræðis og hlutlægni sé gætt við úthlutun framlaga ár hvert.

Reykjavíkurborg byggir mál sitt á Hæstaréttardómi frá 2018 þar sem Grímsnes- og Grafningshreppur fékk hnekkt skerðingu á framlögum Jöfnunarsjóðsins vegna hárra heildarskatttekna af útsvari og fasteignaskatti sem væru a.m.k. 50% umfram landsmeðaltal.

Ríkislögmaður hafnar kröfunni

Í apríl svarar Ríkislögmaður erindinu fyrir hönd ríkisins og hafnar kröfunni með öllu. Segir hann að Reykjavíkurbor dragi of víðtækar ályktanir af Hæstaréttardómnum og að fullyrðingar borgarinnar um að reglur Jöfnunarsjóðsins feli í sér ólögmæta mismunun og séu þar með í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eru byggðar á hæpnum grundvelli. Þá segir í bréfi Ríkislögmanns að ef fallist yrði á kröfu Reykjavíkurborgar yrði gríðarleg óvissa um starfsemi og hlutverk sjóðsins. Hægt yrði að deila um lögmæti allra framlaga sjóðsins frá upphafi og nánast öll sveitarfélögin ættu kröfu á ríkið vegna vangreiddra framlaga.

Bent er á að Reykjavíkurbor hafi fengið næsthæstu tekjur af útsvari á eftir Garðabæ og fasteignamat í borginni er hærra en sá álagningarstofn sem lá til grundvallar fasteignaskatti og notaður er við útreikninga á framlögum til sveitarfélaga til jöffnunar tekna af fasteignaskatti. Það væri því andstætt markmiðum laganna að Reykjavíkurborg fengi framlög til jöfnunar af fasteignasköttum.

Ríkislögmaður hafnar því einnig að jafnræðisreglan í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar eigi við um sveitarfélög og stjórnvöld. Segir hann að reglan sé til þess að vernda borgarana gagnvart stjórnvöldum en ekki stjórnvöld gagnvart hvoru öðru. Jafnvel þótt jafnræðisreglan væri tali gilda þá væri það ekki, að mati Ríkislögmanns, andstætt henni að Reykjavíkurborg væri ein í sér flokki þegar sveitarfélögunum sem skipt í nokkra flokka eins og gert er við útreikninga á framlögum til sveitarfélaga. Reykjavíkurborg sé höfuðborg og langfjölmennasta sveitarfélag landsins.

Kynnt voru drög að svarbréfi borgarinnar en ekki hefur verið upplýst um innihald þess.

DEILA