Norlandair: rangfærslur í fréttatilkynningu Ernis

Norlandair hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem svarað er því sem fram kom í fréttatilkynningu Flugfélagsins Ernis fyrr í dag.

Segir í tilkynningunni að rangfærslur séu í tilkynningu Ernis. Segir að flugvélakostur Norlandair og fjárhagslegt hæfi uppfylli öll skilyrði útboðsins.

Tilkynningin í heild:

„Vegna fréttatilkynningar flugfélagsins Ernis sem send var fjölmiðlum nú seinni partinn sér Norlandair sig knúið til að leiðrétta rangfærslur sem þar birtast.
Flugleiðirnar Bíldudalur, Gjögur og Höfn í Hornafirði eru ríkisstyrktar flugleiðir sem fóru í opið útboð þann 20. apríl s.l. Útboðinu var lokað þann 16. júní. Ríkiskaup tilkynntu síðan 31. ágúst að ganga skyldi til samninga við Norlandair um allar flugleiðirnar á grundvelli þess að Ernir uppfylltu ekki fjárhagsskilyrði útboðsins.
Þessi niðurstaða Ríkiskaupa var kærð af Erni og tók þá Vegagerðin aftur til sín málið. Frekari kærur komu frá Erni, m.a. um að samningsgerð skyldi stöðvuð. Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði um þá kröfu og aflétti samingsbanni á málsaðila þann 30. október s.l. Þetta hefur því miður tafið allt ferlið og stytt mjög undirbúningstíma.
Í kjölfarið undirritaði Vegagerðin samninga við Norlandair um flugleiðirnar Bíldudal og Gjögur, enda tilboð Norlandair ríflega 185 milljónum króna hagstæðara en tilboð Ernis.
Norlandair starfar á samkeppnismarkaði á N-Atlantshafi og tók þátt í þessu útboði eins og endranær í opinberum útboðum. Félagið uppfyllti öll skilyrði útboðsins, bæði hvað varðar vélakost og fjárhagshæfi. Á grundvelli hæfis og verðs var samningur undirritaður við Norlandair 2. nóvember s.l.
Flugvélakostur Norlandair og fjárhagshæfi uppfyllir öll skilyrði útboðsins og er hafið yfir vafa.
Það er sorglegt að þurfa að bera til baka ítrekaðar rangfærslur eftir þátttöku í opinberu útboði. Til þess er stjórnsýslufarvegur og treystum við því að þar sé allt gert á eðlilegan og faglegan hátt.
Að endingu óskum við Herði Guðmundssyni og starfsfólki flugfélagsins Ernis velfarnaðar og friðar.“

DEILA