Um þessar mundir eru til meðferðar hjá Óbyggðanefnd kröfur Bjarna Benediktssonar f. h. ríkissjóðs um að ríkið eignist víðáttumikil svæði á Vestfjörðum. Óbyggðanefnd hefur þegar kveðið upp úrskurð sinn varðandi eignarhald víða á landinu með misjöfnum árangri fyrir landeigendur en ágætum árangri fyrir ríkissjóð.
Tilraunir valdamikilla aðila í samfélaginu fyrr á tímum til að sölsa undir sig eignarlönd eru svosem engin nýlunda. Lesa má um stórbokka frá Skarði á Skarðsströnd, Reykhólum, Saurbæ á Rauðasandi, Vatnsfirði við Djúp og víðar sem stunduðu þessa óþokkaiðju.
Ég tel mig hafa lúslesið svonefndan rökstuðning fjármálaráðherra varðandi þessar landakröfur. Sá texti er öllum aðgengilegur á heimasíðu Óbyggðanefndar.
Í Barðastrandarsýslum eru kröfurnar ekki studdar rökum af neinu tagi. Hvergi kemur fram að vafi leiki á eignarhaldi. Þarna virðist því vera um að ræða grímulausa ásælni í lönd í einkaeigu annars vegar og hins vegar lönd sem þegar eru í eigu ríkissjóðs sem verður að telja gersamlega tilgangslaust að gera að þjóðlendum.
Kröfugerð varðandi Ísafjarðarsýslur virðist vera nokkuð annars eðlis. Þar velur fjármálaráðherra þá leið með fulltingi skósveina sinna að krefjast hálendis og fjallatoppa með því sérkennilega orðalagi að „land innan kröfusvæðisins er að mestu í yfir 450 m hæð gróðursnautt og hafi ekki verið nytjað.“ Fjármálaráðherra virðist semsagt telja það rök í þessu máli hvernig menn nytja löglegar eignir sínar. Þetta eru næsta fáránleg „rök“ fyrir því að svifta menn eignum sínum. Í flestum tilfellum er um að ræða lönd sem skipt hafa verið milli eigenda sinna frá alda öðli oftast ágreiningslaust. Á þessu svæði hafa vatnaskil alltaf skipt löndum á fjöllum sé ekki annars getið. Frá þessari hálendiskröfu ríkissjóðs eru nokkrar forvitnilegar undantekningar. M.a. krefst fjármálaráðherra þess að ríkissjóður eignist allt land jarðarinnar Reykjafjarðar norðan Drangajökuls. Þar mun vera rekin þróttmikil ferðaþjónusta á sumrin á vegum eigenda jarðarinnar á vinsælu útivistarsvæði. Ég læt lesendum eftir að hugleiða það hvort ríkissjóður hefði lagt í þá uppbyggingu sem þar er hefði jörðin verið í eigu hans. Mér er nærtækt að taka sem dæmi jörðina Sauðlauksdal í Vesturbyggð. Þar var prestssetur um aldir og þar voru framkvæmdar fyrstu tilraunir til landbóta og jarðræktar á Íslandi. Sú jörð hefur verið í eigu ríkissjóðs um árabil. Jörðin er í niðurníðslu að undanskilinni kirkjunni sem er í ágætri umsjón sóknarnefndar. Prestsbústaðurinn var seldur einkaaðila fyrir fáeinum missirum og þá hófust þegar endurbætur á honum. Þannig virðast þessi hús hafa sloppið undan hinum eyðandi hrammi ríkissjóðs en jörðin sjálf er enn í niðurníðslu.
Fyrir stuttu síðan munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haldið almennan fund á Ísafirði. Á þeim tíma var til sölu náttúruperlan Vigur í Ísafjarðardjúpi. Hún var svo seld einkaaðila sem vonandi mun halda þessa fögru eyju af sömu ræktarsemi sem alltaf hefur verið. Á þessum fundi mun Bjarni Benediktsson hafa verið spurður álits á því að ríkissjóður keypti Vigur. Bjarni mun hafa tekið dræmt í hugmyndina með þeim orðum að ríkið væri lélegur landeigandi sem er hverju orði sannara. Því vekur furðu að nokkrum vikum seinna skuli ríkissjóður sem hann veitir forstöðu ganga fram í að reyna að hafa aðrar landareignir af skráðum eigendum sínum. Ríkissjóður veldur með þessu landeigendum sem flestir eru eingir stóreignamenn miklum skaða þar sem þeir eru nú nauðbeygðir að taka til varna með tilheyrandi lögfræðikostnaði
Sú hugmynd að „hirða“ lönd af eigendum sínum er ekki ný. Kunnugt er að stjórnendur kommúnistaríkja iðkuðu það á síðustu öld að taka lönd og fasteignir af eigendum sínum og þjóðnýta þær. Sjá má mörg sorgleg dæmi þessa í fyrrum Sovétríkjunum og á áhrifasvæði þeirra. Það þætti hinsvegar saga til næsta bæjar í þeim héruðum að á litla Íslandi sé nú á dögum formaður í yfirlýstum hægriflokki sem í orði kveðnu telur sig standa sérstakann vörð um eignarréttinn og sem minnst ríkisafskifti skuli reyna að hirða bótalaust land í einkaeigu.
Því verður Bjarni fjármálaráðherra að teljast sannkallaður sporgöngumaður og samherji fyrrverandi stjórnarherra í Kreml og núverandi stjórnarherra í Kína. Það mætti líka fylgja þessari frétt frá Íslandi að ekki virðist standa til að stugga neitt við fjársterkum útlendingum sem stunda það að kaupa upp heilu sveitirnar á Norðausturlandi og víðar.
Mér finnst umhugsunarvert fyrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, í ljósi þess sem hér er skráð, hvort þeir eru í raun að styðja frelsi einstaklingsins eða kommúnista í sauðagæru með stuðningi sínum.
Það er mjög í tísku í dag að styðja hverskonar náttúruvernd sem er vissulega af hinu góða ef gætt er öfgaleysis og ef náttúruverndarsinnar afla sér haldbærrar þekkingar á málefninu. Hvergi kemur fram í kröfugerð fjármálaráðherra að tilgangur ríkisins sé einhverskonar náttúruvernd. Stjórnmálamenn skreyta sig þó gjarnan með innihaldslausu tali um náttúruvernd og innviði a.m.k. á hátíðum og tyllidögum. Dugnaður þeirra á þessu sviði fellst helst í að upphugsa sem flest nöfn og hugtök yfir verndarsvæði svo mér telst til að gerðir verndarsvæða skifti nú mörgum tugum frá hinum ýmsu opinberu aðilum. Ekki er annað hægt en dáðst að orðkyngi embættismanna ríkisins og hugkvæmni að láta sér detta í hug sífellt fleiri orð yfir sjálfsagða hluti en sjaldnast fylgir fjármagn með þessum nafngiftum. En embættismönnunum tekst sjálfsagt að tárast dálítið bæði útvortist og innvortis yfir eigin ágæti.
Nú er það svo að ég vil gjarnan láta alla njóta sannmælis. Vera má að fjármálaráðherra hafi ekki sett sig persónulega inn í þessi mál enda upptekinn þessa dagana að skrúfa sem mest frá öllum krönum út úr ríkissjóði í því fári sem yfir þjóðina gengur. Sé svo held ég að hann ætti að endurskoða veru sérfræðinga sinna sem þessu máli sinna í sínum embættum.Ef kröfugerð þeirra varðandi annan málarekstur ríkisins er með sama hætti og rökleysið varðandi þjóðlendur á Vestfjörðum mun ríkissjóður tapi hverju málinu á fætur öðru.
Nú setja Vestfirðingar traust sitt á hina reynslumiklu dómara sem sitja í Óbyggðanefnd. Ég er svo bjartsýnn að trúa því að þeir fari að dæmi kollega sinna í Bandaríkjunum sem um þessar mundir vísa á bug tilhæfulausum og fáránlegum kröfum.
Það skal að lokum tekið fram að fjármálaráðherra gerir engar kröfur varðandi eignir undirritaðs á Vestfjörðum. Mér svíður einungis að gengið sé á rétt sveitunga minna og vina í þessu máli.
Hilmar Össurarson frá Kollsvík