Júlíus Geirmundsson ÍS : sjópróf í dag

Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við bryggju í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sjópróf fer fram við Héraðsdóm Vestfjarða í dag og hefst kl 9. gert er ráð fyrir að því verði lokið síðdegis. Það voru fimm stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS sem fóru fram á sjóprófið. Rannsóknarefnið er veiðiferð skipsins þar sem kórónaveiran dreifðist um skipið með þeim afleiðingum að nær allir skipverjar smituðust og tóku veikuna. Þrátt fyrir það ákvað skipstjórinn að skipið héldi áfram veiðiferðinni og  hunsaði tilmæli um að sigla því til lands.

Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að tilgangurinn sé að leiða fram atburðarrásina í veiðiferðinni og draga fram hver gerði hvað þannig að ljóst verði hvar ábyrgðin liggur. Það getur haft verulega þýðingu komi til þess að skipverjar hafi orðið fyrir tjóni.

Skipverjar munu verða spurðir út úr svo og útgerðarstjóri og útgerðin. Bergvin sagði að fram hefði komið opinberlega að skipstjóri myndi ekki gefa sinn vitnisburð og eins myndi framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör ekki gera það heldur. Ekki væri vitað um viðbrögð útgerðarstjórans.

Bergvin Eyþórsson sagðist gera ráð fyrir að aðkomu verkalýðsfélagsins að málinu lyki þar með. Lögreglurannsókn stæði yfir vegna kæru stéttarfélaganna og framhald þess væri ekki í höndum þeirra. Við tæki venjuleg hagsmunagæsla fyrir einstaka félagsmenn.

Aðspurður kvaðst Bergvin ekki  hafa fengið bréf meirihluta áhafnar Júlíusar Geirmundssonar ÍS til útgerðarinnar, þar sem krafist er þess að skipstjórinn verði látinn hætta, en sagðist hafa fengið það staðfest að bréfið hafi verið sett fram.

DEILA