Ísafjarðarbær: minnihlutinn lýsir yfir þungum áhyggjum af rekstri bæjarsjóðs

Fjárhagsáætlun 2021 fyrir Ísafjarðarbæ var lögð fram á fundi bæjarstjórnar fyrir helgina. Samþykkt var að vísa henni til síðari umræðu.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri lagði áætlunina fram og kynnti hana.

Arna Lára Jónsdóttir, Í lista lagði fram bókun frá Í listanum þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af rekstri sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess. Segir að stefni í alvarlega fjárhagsstöðu þar sem halli ársins stefni í 400 m.kr. Telur minnihlutinn að grípa verði til aðgerða en lýst yfir andstöðu við tillögur meirihlutans sem eru sagðar klassískar frjálshyggjuaðgerðir sem byggi á sölu eigna, einkum Fastís. Lagst er gegn byggingu knattspyrnuhúss við núverandi aðstæður.

Bókunin í heild:

„Bæjarfulltrúar Í-listans lýsa yfir þungum áhyggjum af rekstri sveitarfélagsins og þeim mikla losarabrag sem einkennir fjármálastjórn bæjarins. Markmið og stefna meirihluta bæjarstjórnar í fjármálum hefur ekki verið lögð fram og óljóst er hvert skuli stefna.

Því miður horfum við fram á grafalvarlega stöðu sveitarsjóðs. Frávik frá þeirri áætlun sem meirihluti lagði fram og samþykkti í lok árs 2019 eru nú í nóvember um 540 milljónir króna. Áætlunin ársins 2020 gerði ráð fyrir afgangi upp á 135 milljónir en raunin er sú að rekstrinum verður skilað rúmlega í 400 m.kr halla skv. útkomuspá ársins 2020. Það er ljóst að tekjufall ársins hefur haft áhrif en það má einnig spyrja sig hvort upphafleg áætlun hafi verið of glannaleg, þar sem m.a. var gert ráð fyrir 7,9% hækkun útsvars milli ára, á sama tíma og ekki var gert ráð fyrir nema litlum launahækkunum. Gríðarlegur halli er á A-hlutanum, lausafjárvandi, lítil fjárfestingargeta og skuldasöfnun. Það er ekki útlit fyrir að þessi dökka mynd breytist næstu árin, ef ekki verður gripið til aðgerða. Þær aðgerðir verða að gera ráð fyrir breytingum sem tryggja íbúum góða þjónustu, hlúa að samfélagi sem eftirsóknarvert er að búa í og bera merki um ákveðna framtíðarsýn og þor til að takast á við nýja tíma. Þær hugmyndir sem bæjarstjóri í umboði meirihlutans hefur lagt á borð bæjarstjórnar til hagræðingar eru gamlar og endurspegla skort á slíkri framtíðarsýn.

Í þessari brothættu stöðu hyggst meirihluti bæjarstjórnar fara klassísku leið frjálshyggjunnar að selja eignir til að fjármagna framkvæmdir, sú leið er varhugaverð, þar sem eingöngu er hægt að selja sömu eignirnar einu sinni og því skammgóður vermir af slíkum aðgerðum.

Í framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að selja Fastís, sem loksins er farið að standa undir sér og skila afgangi, til þess að geta byggt fótboltahús. Það ber vott um algjört ábyrgðarleysi meirihluta bæjarstjórnar og skammsýni, því afar óskynsamlegt er í þeirri óvissu sem rekstur sveitarfélagsins er í að fara í slíka kostnaðaraukandi framkvæmd. Áætlaðar sölutekjur af Fastís koma ekki til með standa undir áætluðum framkvæmdarkostnaði. Nær væri að huga að atvinnuskapandi verkefnum og undirbúa lóðir fyrir húsnæði og atvinnulíf, eða taka þátt í byggingu íbúðarhúsnæðis, sem skortur er á. Þannig getur samfélagið náð góðri viðspyrnu þegar endurreisnarstarfið hefst. Bæjarfulltrúar Í-listans hafa skilning á því að bæta þurfi aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun en telja það vera skynsamlegra að koma upp löglegum gervigrasvelli í stað þess að byggja fótboltahús við þessar aðstæður sem nú eru uppi.“

DEILA