Flateyri: 100 – 200 m.kr. tjón vegna snjóflóðsins í janúar

Flateyrarhöfn í vetur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í yfirlitsskýrslu Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra Ísafjarðarhafna um áhrif snjóflóðsins á Flateyri í janúar kemur fram að hann telur heildartjón vegna flóðsins vera á bilinu 100 til 200 milljónir króna  og er þá talið það tjón sem einstaklingar og tryggingarfélög þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem urðu fyrir tjóni vegna snjóflóðsins.

Kostnaður vegna tjóna sem falla undir tryggingar er  13,3 m.kr og hafnastjóri metur vinnu og efni vegna þess sem ekki féll undir tryggingar vera 11,3 m.kr. Samtals metur hann heildarkostnað hafnasjóðs 24,5 m.kr.

Sex bátar voru í höfninni þegar flóðið féll og sukku fjórir og tveir fóru upp í fjöru.

Tveir gámar, 20 og 40 feta, sem innihéldu rafgeyma, kajaka, björgunarbáta og fleira höfðu færst til á bryggjunni. Talið var í fyrstu að þeir hefðu farið í sjóinn en við skoðun kom í ljós að þeir voru uppi á bryggjunni, mikið skemmdir undir sjóflóðinu. Búnaður sem var í gám Iceland Pro Fishing virðist hafa horfið að mestu leyti með flóðinu þar sem einungis var um að ræða örfáa vinnuflotbúninga. Gámurinn sem innihélt kajaka frá kajakleigunni Grænhöfða var illa farinn og allt sem í honum var virðist vera ónýtt.

Myndir úr skýrslunni.

Varnargarðurinn beindi flóðinu í höfnina

Í skýrslunni segir hafnastjóri nauðsynlegt að byggja varnargarð til þess að koma í veg fyrir að snjóflóð geti fallið í höfnina á Flateyri og segir að  málið hafi verið rætt í hafnarstjórn  sem ályktaði að það verði að búa svo um að atvinnutæki og einstaklingar geti áhyggjulaust verið með eigur sínar í og á höfninni. Svo segir: „Það má leiða líkur að því að núverandi varnargarður hafi valdið því að beina snjóflóðum í bátahöfnina á Flateyri og verður að telja að það sé algerlega óásættanlegt að svo sé“ og beinir þeim tilmælum „að fara strax í að láta fara fram undirbúning og hönnun mannvirkis til þess að verja bátahöfnina á Flateyri og hafist verði handa um byggingu varnargarðs eins fljótt og hægt verður til að öryggi allra verði tryggt til framtíðar.“

DEILA