Vegagerðin gerir ráð fyrir að með tilkomu Dýrafjarðarganga muni umferð milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða aukast um 67% á næstu 5 árum. Þetta kemur fram í viðbragðáætlun fyrir Dýrafjarðargöng sem Vegagerðin hefur birt.
Viðbragðsáætlunin lýtur að öryggi umferðar um göngin. Hún er unnin af Vegagerðinni og er m.a. byggð á viðbragðsáætlunum annarra jarðganga. Samráð var haft við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar og Lögregluna á Vestfjörðum.
Þar kemur fram að umferðin á síðasta ári yfir Hrafnseyrarheiði hafi verið 149 bílar á dag að jafnaði yfir árið, svokölluð ársdagsumferð. Dreifing umferðarinnar var eðlilega mjög ójöfn eftir mánuðum, yfir sumarmánuðina var meðaltalið 260 bílar á dag en aðeins 69 bílar á dag yfir vetrarmánuðina.
Umferðarspáin er að á næsta ári verði ársdagsumferðin 180 bílar í gegnum Dýrafjarðargöng og árið 2025 muni umferðin taka stökk eftir að Dynjnandisheiði verður komin með heilsársveg þar sem hluti umferðar sem nú fer um Djúpið flytjast yfir á Vestfjarðaveg. Þá er ársdagsumferðin talin verða orðin 280 bílar á dag. Aukningin á þessu árabili er 67%. Sé litið til lengri tíma eða næstu 25 ára þá er spáð að umferðin verði orðin 445 bílar á dag. Það er þreföldun á umferðinni eins og hún var 2019.
Þá er í spánni einnig gert ráð fyrir nærri þreföldun á umferðinni eftir Bíldudalsvegi um Arnarfjörð frá Bíldudal að Helluskarði, aukning úr 99 bílum í 265 bíla árið 2025.