Aukum verðmæti og vinnum fiskinn hér á landi

Í vor kynnti ASÍ áherslur sínar til uppbyggingar betra samfélags eftir Covid undir yfirskriftinni Rétta leiðin. Þó baráttan við veiruna taki lengri tíma en almennt var talið í vor eiga tillögurnar enn vel við. Meðal þess sem við lögðum áherslu á til atvinnuuppbyggingar var að fullvinna sjávarafurðir á Íslandi og takmarka útflutning á óunnum fiski. Nú er þessi umræða komin á dagskrá og hefur verið bent á að þjóðarbúið verði af 10 milljörðum króna árlega vegna útflutnings á óunnum fiski. Slíkur útflutningur  hefur stóraukist síðustu ár. Störf sem annars væru dreifð um landið skipta hundruðum og að auki getur það varla talist umhverfisvænt að flytja hráefni um langan veg til vinnslu einungis til að geta greitt lægri laun. Áður hafa stjórnvöld gripið til aðgerða til að stemma stigu við útflutningi og við gerum kröfu til þess að það sé gert þegar í stað.

Í vikunni fylgdu ASÍ og Neytendasamtökin eftir umsögn til Persónuverndar um starfsleyfi til Creditinfo. Það er mér reyndar óskiljanlegt af hverju einkafyrirtæki fær að sýsla með svo viðkvæmar upplýsingar sem skuldastaða fólks er. Ef allt væri eðlilegt væri það opinber stofnun, með þeim skyldum sem þær hafa gagnvart einstaklingum, sem færi með þetta vald. ASÍ og Neytendasamtökin voru með fjölda athugasemda við starfsleyfið og er fólk sem lendir í skuldavanda í stökustu vandræðum með að fá upplýsingar um höfuðstól krafna og ekki síst hvernig það kemst út af skuldaskrá. Við vitum öll af slíkum dæmum og nú þegar harðnar í ári er sannanlega kominn tími til að vinda ofan af því ranglæti að eitt fyrirtæki á Íslandi beinlínis maki krókinn á því að setja fólk á svartan lista. Lista sem er svo ógagnsær að fólk veit ekki hvað það þarf að gera til að komast af honum og veit jafnvel ekki hvernig það komst á hann. Örlög þeirra sem lenda á vanskilaskrá eru oftar en ekki skertir möguleikar til lána, húsaleigu og húsnæðiskaupa. Framtíð fólks og möguleikar til að bjarga sér eru í húfi.

Góða helgi,
Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA