Atvinnuleysi einna minnst á Vestfjörðum

Flestir eru atvinnulausir í Ísafjarðarbæ.

Atvinnuleysi á Vestfjörðum var 3,3% í lok september en á landinu öllu var það 8,8%. Var það hvergi minna nema á Norðurlandi vestra þar sem atvinnuleysið var 3,2%.

Þetta má lesa út úr tölum frá Vinnumálastofnun.

Alls voru 18.443 atvinnulausir á landinu í lok september og hefur atvinnuleysið ekki verið meira síðan covid 19 skall á. Það er einkum á suðvesturhorni landsins sem atvinnuleysið hefur aukist bæði hlutfallslega og í beinum fjölda. Mest er það í Reykjavík en þar voru 7.767 atvinnulausir í lok september. Í Reykjanesbæ voru 2.374 atvinnulausir  og 1.190 á Suðurlandi.  Hlutfalllega er það hæst í Reykjanesbæ 16,5% og 9,9% í Reykjavík.

Á Vestfjörðum voru 130 manns atvinnulausir. Athyglisvert er að atvinnuleysið á Vestfjörðum er um 30% minna en það var í apríl og hefur það verið nokkuð stöðugt síðustu fjóra mánuði.

Flestir eru atvinnulausir í Ísafjarðarbæ eða 66. Þar er atvinnuleysið 3,1% sem er heldur lægra en meðaltalið á Vestfjörðum. Í Vesturbyggð voru 24 atvinnulausir í lok september og 21 í Bolungavík.

Vinnumálastofnun gerir  ráð fyrir að atvinnuleysi muni  aukast næstu mánuði og verða orðið 11,3% í lok ársins.

DEILA