Þetta er gott!

Fólk spyr stundum þegar það fregnir að ég sé frá Flateyri og hafi alist þar upp hvort ég þekki ekki örugglega hann Sigga frá Patreksfirði eða hana Kollu frá Bolungarvík. Vandræðalega neyðist ég jafnan til að hrista hausinn neitandi en reyni þá um leið að útskýra með veikum mætti að samgangur á milli þorpa og byggðarlaga á Vestfjörðum hafi bara alls ekki verið svo mikill á mínum bernskuárum. Stöku sundmót og skólaferðalög veittu kannski örstutt tækifæri til að hitta aðra krakka frá öðrum stöðum, ekki mikið meira. Það er ekki öllum gefið utan Vestfjarða að skilja það dæmi til enda að þrátt fyrir að vegalengdin á milli Þingeyrar og Bíldudals er samkvæmt Google Maps rétt undir 100 km taki það allt að 8 klukkustundir að keyra á milli staðanna að vetri til, með stuttu stoppi á Hólmavík.

Ég man eftir því sem krakki að hinir fullorðnu höfðu stundum orð á því að það væri styttra til Reykjavíkur frá Flateyri en til Ísafjarðar. Ég pældi dálítið í því. En þannig var það þegar ófært var yfir gömlu Breiðadalsheiðina dögum og jafnvel vikum saman. Þórólfur flugstjóri þótti traustari kostur en að leggja til atlögu við ófæra Kinnina. Frændi minn hefur líka sagt mér sömu söguna í 30 ár þegar heiðin varð ófær í eitthvert skipti alla mánuði ársins. Bílaröðin frá vegamótum í Breiðadal langt upp eftir heiðinni á Þorláksmessu, þar sem beðið var í nokkrar klukkustundir eftir að blásarinn kæmist í gegn og héldi opnu eins lengi og hann gæti, gleymist heldur ekki. Það gæti svo verið að ég hafi fyrst séð til Einars Kristins Guðfinnssonar í sjónvarpsviðtali skömmu eftir að hann rétt komist undan snjóflóði í Óshlíðinni á heppninni einni saman.

 

Breyttir tímar

Kannski voru vetrarhörkur þá svona miklu verri en nú. Hvað sem því eða öðru líður þá eru tímarnir aðrir. Bættar samgöngur hafa líka gjörbreytt stöðunni. Göng undir Breiðadalsheiði, Óshlíðargöng og heilsársvegur frá Ísafirði um allt Djúpið og niður í Dali voru allt stórmerkilegir áfangar á langri leið. Verkefninu er ekki lokið. Árneshreppur er enn einangraður og Súðarvíkurgöng hljóta að vera sett á dagskrá ef frekara samstarf, til að mynda á milli sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum, á að vera að veruleika. En leiðin styttist engu að síður. Bráðnauðsynlegar framkvæmdir við Vestfjarðarveg um Gufudalssveit eru loks hafnar eftir meira en áratuga baráttu og uppbygging Dynjandisheiðar er byrjuð.

Stóri ókleifi múrinn fellur svo loks núna á sunnudaginn, þann 25. október, þegar Dýrafjarðargöng verða formlega opnuð. Ég hef reynt að setja niður á blað lýsingu á hvað þetta eru stórkostleg tímamót og hve mörg tækifæri skapast en lítið gengið. Bylting væri kannski rétta orðið. Vestfirðir sem voru og Vestfirðir sem verða. Kannski eru orð algjörlega óþörf og einfaldast að njóta þess að keyra göngin nokkrum sinnum fram og til baka og segja þá eitthvað spaklegt eins og: „Þetta er gott!“.

Til hamingju Vestfirðingar með Dýrafjarðargöng!

 

Teitur Björn Einarsson,

lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA