Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra vék að úrskurði úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál um Teigsskóg í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. En þar standa nú yfir umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Sigurður Ingi sagði að í dag væri gleðidagur.
„Og í dag er gleðidagur – eftir margra ára baráttu fyrir bættum samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur sá dómur verið kveðinn upp að framkvæmdir geta loks hafist í gegnum Teigsskóg. Áfram veginn um Teigskóg.“
Þá segir samgönguráðherra í færslu á facebook í dag um málið að úrskurðurinn hafi verið skýr og aflétt hafi verið stöðvun á framkvæmdum í gegnum Teigsskóg. Um framhaldið skrifaði ráðherrann:
„Vegagerðin hyggst bjóða út þverun Þorskafjarðar í haust og hefja framkvæmdir í vetur. Þetta er verk upp á 2,5-3 ár. Samhliða verður unnið að öðrum köflum verksins þannig að verklok ættu að geta orðið 2024.“