Rafmagnsferjur í samgöngum Vestfjarða ?

Það er fagnaðarefni að nú eru bara dagar í það að Dýrafjarðargöng verði opnuð. Ekki þarf að fjölyrða um það að jarðgöng skipta sköpum í bættum samgöngum. Frændur okkar Norðmenn og Færeyingar hafa verið öllu stórtækari en við Íslendingar í þessum efnum. Þessar þjóðir hafa reitt sig mikið á bílaferjur yfir sund og firði og ný jarðgöng leyst þær af hólmi. En nú er að verða hér breyting á í Noregi með tilkomu bílaferja sem eru drifnar áfram með rafmagni. Þær eru langtum ódýrari í rekstri, bæði hvað varðar kostnað við viðhald og mönnun. Það sem meira er að þær verða brátt sjálfvirkar. Þannig geta t.d. þeir sem nota ferjurnar mikið s.s. flutningsaðilar með vörur og fólk verið í beinu sambandi við ferjurnar og þær verið tiltækar þegar rennt er á bryggju og þannig stytt biðtíma sem hefur verið ákveðinn akillesarhæll í rekstri hefðbundinna ferja. Hugmyndin er þá að vera með fleiri og minni ferjur í rekstri og ná þannig upp nægri ferðatíðni.

Því datt mér það í hug hvort svona lausnir gætu í mjög náinni framtíð gagnast í að bæta samgöngur á Vestfjörðum. Þar er ég að horfa til þess að svona sjálfvirkar rafmagnsferjur gangi yfir fyrir mynni Suðurfjarða t.d. milli Steinaness og Bíldudalsflugvallar. Þarna yfir er 15-20 mín sigling og síðan yrðu gerð 4 – 5 km löng göng úr Fossdal yfir í Mórudal á Barðaströnd. Síðan er hægt að láta sig dreyma um göng undir Tálknafjarðarheiði. (sjá mynd)

Ólafur Jónsson

Akureyringur og áhugamaður um samgöngur

DEILA