Ógleymanleg veisla

Var það ekki Kiljan sem sagði, að fegursta bókarheiti á íslensku væri: „Frá Djúpi og Ströndum“? Þetta rifjaðist upp fyrir mér um seinustu helgi, þegar við leituðum aftur á fornar slóðir. Við, þ.e.a.s. við Kolfinna, Jón Baldvin og bróðursonur hans, Ari – og Urður  vinkona okkar.

Og fornar slóðir? Jú – Jón Baldvin sem segist vera fæddur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði, var vistaður í sveit hjá móðurbróður sínum, Hafliða í Ögri, fram undir fermingu.  Móðurfrændur hans kenna sig við Strandsel, þar sem fyrsti formaður Alþýðuflokks og forseti ASÍ, Jón Baldvinsson, var fæddur. Hannibal faðir hans, er hins vegar ættaður af Norðurströndum en fæddur í Arnardal við Skutulsfjörð. Sumir segja, að Jón Baldvin sé seinasti maðurinn sem enn talar vestfirsku. Þetta er að vísu ekki rétt, því að ég heyri ekki betur en að Kolfinna, dóttir okkar, tali líka óforbetranlega vestfirsku; hún ólst reyndar upp á Ísafirði og er upp á dag jafnaldri Menntaskólans á Ísafirði.

Við heyrðum í fréttum, að MÍ gæti ekki haldið upp á afmælið út af plágunni. Við Kolfinna ákváðum hins vegar að gera okkur dagamun í tilefni af afmælinu – hennar og MÍ. Og þá kom ekki annað til greina en að gera það á Ísafirði. Þess vegna fórum við sem leið liggur um Dali og yfir Þröskulda, Strandir og Steingrímsfjarðarheiði og sjálft Djúpið í haustlitadýrð. Þetta reyndist vera sjö klukkustunda akstur,  þar sem við vorum umvafin ólýsanlegri náttúrufegurð, sem við krydduðum með sögum og sögnum um mannlíf í veröld sem var.

Ég notaði tækifærið til að kynna bókina mína: „Brosað gegnum tárin“ – af því að veigamikill kafli í henni er um árin okkar Jóns Baldvins á Ísafirði. Eg hef sagt það áður, að brautryðjendaárin okkar við sköpun menntaskólans voru mér eins og háskólaárin hans Gorki –  kannski lærdómsríkasta tímabil ævinnar. Hálfgleymdar minningar um þetta einstæða tímabil ævinnar vöknuðu aftur til lífsins við að hitta gamla vini og nemendur þessa stuttu stund í Edinborgarhúsinu, sem nú hýsir bæði tónlistar- og balletskóla –  og það á miðju hafnarsvæðinu við Pollinn. Allt er að vísu gerbreytt frá því sem áður var. Það er eins og Inga Dan – þá sveitastelpa úr Húnaþingi –  lýsti skólavist sinni í MÍ fyrir tæpri hálfri öld: Veröld sem var.

Það á líka við um bæinn sjálfan. Bæjarbryggjan er horfin, Fagranesið – djúpbáturinn sem tengdi byggðina við Djúp höfuðstaðnum – er líka horfinn. Bæir í byggð í Djúpinu teljast núorðið á fingrum annarrar handar. Þar með er Kaupfélagið horfið. Togararnir farnir. Frystihúsin, Norðurtanginn og Efra íshúsið – hafa breyst í lúxusíbúðir og menningarmiðstöðvar. M.a.s. Gamla bakaríið hennar Rutar er til sölu.

Hvað hefur tekið við? Fjölbrautaskóli og fræðasetur á háskólastigi. Rannsóknarstofur og nýsköpun? Fjöldi veitingahúsa – meira að segja frægasti og eftirsóknarverðasti fiskréttastaður við norðanvert Atlantshaf – og þótt víðar væri leitað. Hótel og gististaðir – og meira að segja bruggverksmiðja! Allt fyrir ferðalanga sem flykkjast á staðinn frá öllum heimshornum.

Gerðu það, alla vega, áður en faraldurinn varð þeim fjötur um fót. Samt var ferðabransinn bara á byrjunarstigi á þessum slóðum.

„Djúp og Strandir“ er ekki bara fegursta bókarheiti á Íslandi. Hérna lýkst upp ævintýraveröld, þar sem streituþjáðir borgarbúar geta leitað endurnæringar með því að komast aftur í lifandi tengsl við ósnortna náttúru. Reykjanesið mun fyrirsjáanlega verða miðpunkturinn í þessari heillandi ævintýraveröld. Sjóleiðin þaðan liggur um þjóðgarðinn á Ströndum, þar sem fuglasinfónían í Hornbjargi er hápunkturinn. Og höfuðstaðurinn mun bjóða þreyttum ferðalöngum upp á gómsætar kræsingar af sjávarfangi.

Er þetta sú veröld, sem bíður okkar í framtíðinni?

Ísfirðingar tala um Neðsta kaupstað, sem státar m.a. af hinum fræga sjávarréttarstað ( þar sem bara er boðið er upp á fisk, sem veiddur er samdægurs) í húsakynnum frá 18du öld. Þar var áður skipasmíðastöð Marselíusar, sem nú tilheyrir veröld sem var. Þarna er orðin mikil uppfylling, þar sem framtíðarhagkerfið mun hasla sér völl. En Hæstakaupstaðarhúsin? Þar hefur hann Úlfur í Hamraborg innréttað ævintýraveröld, sem mun bjóða langt aðkomnum upp á eftirminnilegar stundir. Þaðan er bara spölkorn niður í Tangagötu, neðst á Eyrinni. Þar voru hér áður fyrr fábrotin húsakynni erfiðisvinnumanna. Ætli obbinn af þessum húsum sé ekki frá 19du öld. Lágreist timburhús, bárujárnsklædd. En hér hefur gerst kraftaverk. Þetta er orðið að heildstæðu hverfi, sem glæðir 19du öldina nýju lífi. Öllum er þessum húsum vel við haldið. Sum þeirra eru beinlínis gersemar, sem bjóða okkur velkomin að virða fyrir okkur veröld sem var, óspjölluð af áreitni tímans.

Þetta var ógleymanleg ferð. Á heimleiðinni yfir Steingrímsfjarðarheiði fór Jón Baldvin að monta sig af því, að hann hefði 12 ára gamall verið aðstoðarmaður Lýðs Jónssonar, yfirvegavinnuverkstjóra Vestfjarða (ætli þetta sé ekki lengsta starfsheiti sem til er á íslensku), við að mæla fyrir vegarstæðinu. Af þessu spruttu háværar umræður um, hvað hann væri eiginlega orðinn gamall.

Bryndís og Jón Baldvin

DEILA