Stjórn Kjördæmafélags Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi lýsir yfir vantrausti á Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flokknum. Þar segir: „Hann hefur ítrekað sýnt að hann veldur ekki því embætti, þar á meðal með því að gera lítið úr sauðfjárbændum og telur hann þá vera að stunda lífstíl með atvinnu sinni líkt og tómstundaiðkun fólks. Landbúnaðaráðherra sem virðir ekki landbúnaðinn hefur ekkert erindi til þess að vera Landbúnaðarráðherra.
Það vekur furðu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem hefur að geyma mikil landbúnaðarhéröð leyfi þessu að viðgangast óáreitt, þeir eru kannski sammála þessum orðum ráðherra síns um bændastéttina. Fylgja þeir ráðherranum í blindni?“
Í gær lét Landbúnaðarráðherra falla í umræðum á Alþingi þau ummæli að margir sauðfjárbændur stundi búskapinn meira sem lífsstíl en spurningu um afkomu. Landssamtök sauðfjárbænda hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir ummælin sv og stjórn Nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands (NLbhÍ).
Í yfirlýsingu frá landssamtökum sauðfjárbænda segir:
„Landssamtök sauðfjárbænda gagnrýna harðlega málflutningi Kristjáns Þórs Júlíussonar, Sjávarútvegsráðherra, á Alþingi þann 6. október, þess efnis að sauðfjárbændur telji að sauðfjárrækt á Íslandi snúist um lífstíl og að afkoma greinarinnar skipti ekki máli. Landssamtök sauðfjárbænda hafa, þvert á móti, kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir sem geta bætt starfsumhverfi greinarinnar. Telji ráðherra að sauðfjárbændur hafi ekki áhuga á afkomu sinni þá er hann ekki upplýstur um stöðu greinarinnar. Landssamtök sauðfjárbænda skora á stjórnvöld að efla landbúnaðarráðuneytið þannig að því sé stýrt af þekkingu og vilja til að starfa að uppbyggingu og eflingu landbúnaðar á Íslandi.“
Óhætt er að segja að nokkuð gusti um ráðherrann þessa dagana því á laugardaginn lýsti SUF, samband ungr framsóknarmanna, yfir vantrausti á ráðherrann og sögðu í samþykkt sinni að ráðherrann vanrækti landbúnaðarmálin í starfi sínu.