Loksins Dýrafjarðargöng!

 

Frá því ég man eftir mér hafa Dýrafjarðargöng verið í umræðunni, þó lítið hafi bólaði á þeim. Ég hef líkt þeim við hressa frænku í útlöndum sem ættingjar tala sífellt um, þó kemur hún aldrei í heimsókn. En nú er sá tímapunktur loksins kominn að hressa frænkan er komin til landsins. Dýrafjarðargöng eru að fara opna!

Fyrir aðeins fjórum árum risu Vestfirðingar upp og brýndu raust sína því seinka átti Dýrafjarðargöngum um nokkur ár. Eina ferðina enn. Þingmenn gripu þá inn í enda öllum ljóst að ekki væri lengur hjá því komist að fara í þessa miklu samgöngubætur á Vestfjörðum. Stjórnsýslan er fyrir löngu farin að líta á norðanverða og sunnanverða Vestfirði sem eitt atvinnusvæði, þó styttra sé að aka á milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur á veturna en Patreksfjarðar og Ísafjarðar. Nú styttist Vestfjarðarvegur um heila 27,4 km og munar aldeilis um þá kílómetra. Ég er ekki viss um að margir hafi gert sér í hugarlund fyrir fjórum árum að göngin yrðu tilbúin árið 2020. Það má hrósa Vegagerðinni og starfsfólki Metrostav fyrir frábæra vinnu. Þrátt fyrir heimsfaraldur tókst þeim að halda áætlun svo aðeins skeikaði einum mánuði. Það er virkilega vel gert.

En svona samgöngubætur komast ekki á kortið nema með mikilli elju og þreki sveitarstjórnarfólks, þingmanna, starfsfólks sveitarfélaga og fjórðungssambandsins og íbúa á Vestfjörðum. Í hvert skipti sem þetta baráttufólk fyrir bættum innviðum á Vestfjörðum nefndi Dýrafjarðargöng við ráðamenn má segja að dropinn hafi holað steininn. Öll þessi barátta hefur skilað okkur á þennan stað, daginn í dag, þann tímapunkt sem Dýrafjarðargöng loksins opna. Megi þið öll fá bestu þakkir fyrir ykkar framlag til bættra samgangna á Vestfjörðum.

Ég hlakka til að sjá sem flest, örugg inni í sínum bílum, á sunnudaginn 25. október þegar göngin verða formlega tekin í notkun. Þetta verður dagurinn okkar. Áfram Vestfirðir!

Hafdís Gunnarsdóttir

Formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu

 

DEILA