Landsnet: Ísafjarðardjúp á framkvæmdaáætlun 2021-23

Ísafjarðardjúp. Mynd: Landsnet.

Nýr afhendingarstaður fyrir raforku í Ísafjarðardjúpi er settur á framkvæmdaáætlun Landsnets næstu 3 árin, frá 2021-23. Önnur stórverkefni á þessum tíma er endunýjum tengivirkis í Breiðadal og styrkingar á sunnanverðum Vestfjörðum.

Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofa fagna verkefnunum en telja þó tímasetningu þessara framkvæmda standa tæpt, til að mæta kröfum atvinnulífs, svo sem í fiskeldi á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum og leggja til að framkvæmdunum verði hraðað. Þetta kemur fram í umsögn um kerfisáætlun Landsnets , en innsendar umsagnir hafa nú verið birtar ásamt svörum Landsnets við þeim.

Landsnet segir í athugasemdum sínum að þessar framkvæmdir sem aðrar á þriðja ára áætluninni séu forgangsframkvæmdir, en það hvernig verkefnin raðast svo á þriggja ára tímabilinu sem áætlunin nær yfir ráðist svo af ýmsum þáttum s.s. flækjustigi framkvæmda, stöðu raforkuafhendingar á viðkomandi svæði, aldri eigna og ástandi þeirra.

Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi er, að mati Landsnets,  einnig mikilvægur hlekkur í því að tvöfalda tenginguna inn á Vestfirði líkt og stefna stjórnvalda segir til um að eigi að vera komin fyrir árið 2030. „Við hjá Landsneti höfum einnig hafið athugun á öðrum mögulegum leiðum á tvítengingu Vestfjarða við meginflutningskerfið“ segir í svörum Landsnets.

Fjórðungssambandið bendir á að þessi uppbygging, þ.e. tengipunkturinn, sé lykilþáttur að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum og uppbyggingu vatnsaflsvirkjana s.s. Hvalár í Ófeigsfirði og annarra virkjanakosta í Ísafjarðardjúpi. Ekki er þó ljóst í dag hvenær verður að þeim virkjanaáformum og skapar það óvissu fyrir landshlutann.

Þá segir í umsögn Fjórðungssambandsins að verði virkjunaráformum á Vestfjörðum frestað til lengri tíma en nú er ætlað, þá verði mikilvægi tvöföldununar Vesturlínu enn ríkara.

 

DEILA