Nú er að koma kaflaskil í Gamla bakaríinu og Árni og Rósa eru að hætta rekstri þessa 100 ára fyrirtækis. Ætla nú ekki að rekja sögu þess en veit að Árni er bara unglingur þegar hann eftir fráfall pabba síns tekur við með mömmu sinni Ruth ,og Rósu , og hafa þau staðið vaktina með miklum sóma, vakin og sofin, alveg einstök, ásamt fleiri fjölskyldu meðlimum og flottum bökurum og starfsfólki. Og svo eru þau mínir hjartans bestu vinir.
Þau hafa ekki bara þjónað Ísfirðingum og Vestfirðingum heldur landsmönnum nær og fjær. Og hefur Gamla bakaríið í hjarta bæjarins, verið svona lífæð fólksins í bænum og verið frábært bakkelsið alla tíð. Við Ísfirðingar með Gamla erum á margan hátt eins og Breska krúnan, við höfum verslað hjá þeim í fjórar kynslóðir, amma, mamma, ég og sonur minn. Það eru líka fjórar kynslóðir sem þekkja bara Elísabetu 2 drottningu.
En ég held ég segi fyrir flesta Ísfirðinga, elsku Árni og Rósa og starfsfólk, hjartans þakklæti fyrir ykkar þátt í sögu bæjarins ,hún er falleg. Og við höfum borið gæfu til að eiga fleiri frábær fjölskyldu fyrirtæki sem náðu háum aldri, eins og Björnsbúð, Bókhlöðuna, Skóverslun Leós, svo dæmi séu tekin.
Bjarndís Friðriksdóttir