Júlíus Geirmundsson ÍS : aðgerðir ákveðnar á morgun

Súsanna Ástvaldsdóttir, sóttvarnarlæknir á Vestfjörðum sagði í samtali við Bæjarin besta að ákveðið yrði á morgun hverjar aðgerðir yrðu vegna kórónuveirusmitanna um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270.  Í dag yrði unnið að því að taka frekari sýni og athuga hvort einhverjir skipverjanna væri með mótefni. Þeir sem greinast kunna með mótefni eru þá ekki með virk smit. Þá þyrfti að ræða við skipverja og skipstjóra um hvar þeir vildu vera í sóttkví og það myndi ekki skýrast fyrr en á morgun.

Togarinn er um það bil að koma til hafnar á Ísafirði.  Súsanna sagði að um það bil helmingur áhafnarinnar væri með lögheimili á Vestfjörðum. Fjöldi smitaðra á Vestfjörðum hækkaði úr 6 í 15 frá því í gær samkvæmt tölum á upplýsingasíðu stjórnvalda. Ekki fengust nákvæm svör við því hver margir skipverjanna hefðu reynst smitaðir að öðru leyti en því að meiri hlutinn hefði greinst með veiruna.

 

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör hf segir að  Júlíus sé væntanlegur til Ísafjarðar eftir hádegið og að „útgerðin er sem fyrr  að vinna í fullu samráði við Umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum sem leiðbeinir um næstu skref. Ekkert er hægt á þessu stigi að segja til um brottför skipsins til veiða að nýju.“

 

DEILA