Ísafjarðarbær: bærinn styður nemendagarða á Flateyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að  styðja við byggingu nemendagarða við Lýðskólann á Flateyri  með því að fella niður gatnagerðargjöld og einnig með því að innheimta ekki  gjald fyrir vinnuframlag fulltrúa bæjarins  í byggingarnefnd nemendagarðanna.

Ekki varð full eining um afgreiðsluna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk Nanný Örnu Guðmundsdóttur, Í lista,  stóðu að samþykktinni en þrír fulltrúar Í listans sátu hjá.

Í erindi Egils Ólafssonar formanns stjórnar Nemendagarða Lýðskólans á Flateyri var óskað eftir aðkomu bæjarins að byggingu nemendagarða í formi stofnframlags sem nemi 12% af byggingarkostnaði. Innifalið í því yrðu gatnagerðagjöld.

Lagðar voru fram tvær bókanir um málið. Önnur frá  Örnu Láru Jónsdóttur,Í listanum þar sem óskað er frekari upplýsinga um kostnað og hin frá meirihlutaflokkunum sem skýrir afstöðu þeirra.

 

Bókun Örnu:

„Undirritaður bæjarfulltrúi telur að uppbygging á nemendagörðum á Flateyri sé metnaðarfullt og gott verkefni. Það vantar gögn um hversu mikla fjárhæð sveitarfélagið er tilbúið að leggja til verkefnisins. Betur færi á að aðkoma bæjarins væri skýrari svo bæjarfulltrúar séu meðvitaðir um hversu mikið væri verið að kosta til og þá gæti stjórn Nemendagarða á Flateyri einnig áttað sig betur á hvað bærinn er tilbúinn að leggja til verkefnisins.“

Bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:

„Hér er að mestu verið að ræða um að gefa eftir gjöld sem bærinn myndi innheimta af framkvæmdinni. Eftirgjöfin verður meiri eftir því sem að framkvæmdin er stærri. Framlag Ísafjarðarbæjar verður nettó alltaf það sama þ.e. að tekjurnar verða engar af leyfisgjöldum“.

DEILA