Ísafjarðarbær: áhyggjur af umgengni á Suðurtanga

Skipasmíðastöð Marsellísar og snyrtilegt umhverfi.

Skipulagsmál voru rædd í bæjarráði á þriðjudaginn að ósk Marzellíusar Sveinbjörnssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Í greinargerð Marzellíusar segir að mikil uppsöfnun á allskonar járnadrasli  hafi átt sér stað á svæðinu fyrir neðan Eimskip. Þá segir: „Sviðsstjóri  umhverfis- og eignasviðs gerði átak í að laga ástandið og benti mönnum á að fjarlægja það. Þetta bar mjög góðan árangur.
Því miður jókst þá uppsöfnun neðar á tanganum og nú eru þar komnir miklir haugar af allskonar endurvinnsluefnum sem engin leyfi eru fyrir. Þarna eru meðal annars spilliefni í formi rafgeyma. Þetta gengur ekki lengur og því lagt til að svæðið verði girt af til þess að stöðva þessa uppsöfnun og vinna þetta svo niður. Það væri líka hægt að semja við verktaka um að fjarlægja þetta fyrir bæinn.“

Marzellísu segist hafa tekið  málið fyrir í hafnarstjórn.  Hafnarstjóri hafi upplýst að hann hefði látið gera skurk í því að taka allt það drasl sem þarna var á vegum hafnarinnar og eyddi á aðra miljón í það verk en svæðið sé ekki á vegum hafnarinnar.

Bæjarráðið lýsti yfir áhyggjum af umgengni á Suðurtanga, á svæði sem er í eigu Ísafjarðarbæjar. Bæjarstjóra var falið að koma með tillögur að úrbótum þannig að svæðið verði bæjarbúum til sóma og leggja fyrir bæjarráð.

 

 

 

DEILA