HVest: semur við Ísafjarðarbæ um sjúkraflutninga

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur samið við Ísafjarðarbæ um sjúkraflutninga. Mun sveitarfélagið annast alla sjúkraflutninga á svæðinu frá Ísafjarðará í Ísafirði, innst í Djúpinu og að Dynjandisheiði í Arnarfirði. Samningstíminn er til loka árs 2024 og fram kemur að stefnt er að áframhaldandi samstarfi að þeim tíma loknum. Samningurinn er uppsegjanlegur um hver áramót.

Heilbrigðisstofnunin greiðir 43 milljónir króna á ári fyrir 350 sjúkraflutninga. Greiddar verða 50.000 kr fyrir hvern flutning umfram þá tölu. Komi til sjúkraflutnings til Reykjavíkur skal samið sérstaklega um kostnað vegna þess.

Samningsfjárhæð er verðtryggð miðað við breytingar á launavísitölu og hækkar um hver áramót.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samninginn, sem þegar hefur verið undirritaður með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

DEILA