Gallup: karlar flýja vinstri flokkana

Fram kemur í greiningu Gallup á fylgi flokkanna, sem gerð var í september,  að samanlagt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna meðal kvenna er 37% en aðeins 20% meðal karla. Fylgi þessara flokka meðal kvenna er nærfellt tvöfalt hærra en meðal karla.

Samfylkingin mælist með 15% fylgi og Vinstri grænir með 14% og samanlagt eru flokkarnir með 29% fylgi. Samkvæmt greiningunni eru 2/3 hlutar samanlagða fylgisins frá konum en aðeins þriðjungur frá körlum. Nytu þessir flokkar sama fylgis með karla og meðal kvenna væru þeir með 37% fylgi í stað 29%.

Kynjahalli er mun meiri í fylgi Vinstri grænna. Flokkur nýtur stuðnings 19% kvenna en 8% karla. Hjá Samfylkingunni eru kynjahallinn minni, en engu að síður verulegur. Fylgi Samfylkingar meðal kvenna er 18% og 12% meðal karla.

Kynjahallinn snýst við hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Pírötum. Hjá þeim öllum er fylgið meira meðal karla en meðal kvenna. Munurinn milli kynjanna er 4 -5% hjá þessum þremur flokkum. Það er minni munur en hjá Vinstri grænum og Samfylkingunni, þar sem hann er 6% og 11%.

Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Pírata er 53% meðal karla og 39% meðal kvenna.

DEILA