Flatey: stálvírasjóvörn í stað steypu

Skipulagsnefnd Reykhólahrepps hefur samþykkt fyrir sitt leyti að falla frá áðursamþykktri sjóvörn í Flatey sem fól í sér steyptan vegg við gamla þorpið á um 30 metra kafla.

Við nánari athugun þykir sú lausn ekki heppileg að mati Vegagerðarinnar, því gríðarmikið magn þarf af steypu í vegginn auk þess sem grundun á þessu svæði er mjög erfið. Lagt er til að leggja í staðinn sérstakt stálvíranet yfir bakkann til að koma í veg fyrir frekara rof. Þessi lausn hefur verið notuð víða í Evrópu með góðum árangri, t.a.m. sem skriðu- og grjótvörn, en einnig sem rofvörn fyrir ágangi sjávar. Stálvírarnir í netinu eru sterkir, með góða tæringavörn og hafa ekki mikil sjónræn áhrif.

Nefndin telur ekki þörf á því að auglýsa breytta framkvæmdina að nýju og að nóg sé að fara í grenndarkynningu.

 

DEILA