Fjórðungsþing vill nýjan veg um Veiðileysuháls og Innstrandarveg

Veiðileysiháls. Mynd: Jón Halldórsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga krefst þess að endurnýjun vegar um Veiðileysuháls verði flýtt og verði hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnar til að mæta efnahagssamdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í ályktun þingsins um samgöngumál er sérstaklega kveðið á um Veiðileysiháls og þar segir að Árneshreppur muni ljúka fjögurra ára þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir á árinu 2021.

„Verkefnið hefur eflt ferðaþjónustu, samfélagið og menningu þess en lítið hefur þokast með uppbyggingu innviða. Umhverfismat framkvæmda á Veiðileysuhálsi er nær lokið og hönnun vegstæðis er hafin. Verði fjármagn eyrnamerkt framkvæmdinni þá má ætla að bjóða megi hana út síðla árs 2021. Með tillögu þessa efnis geta stjórnvöld sent þau skilaboð að þau trúi á framtíð samfélagsins í Árneshreppi og fylgi þar með eftir þingsályktun Alþingis um verndun búsetu og menningar í Árneshreppi.“

Innstrandavegur.

Þá var einnig ályktað um Innstrandaveg í Tungusveit í Strandasýslu og þess krafist að endurnýjun vegkafla Innstrandavegar milli Heydalsár og Þorpa, verði unnið á árinu 2021, sem hluta af fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Samkvæmt Samgönguáætlun 2020-2034 á að vinna að verkefninu á tímabilinu 2025-2029, en um er að ræða endurnýjun og setja bundið slitlag á 5 km malarveg og ná þá loks samhangandi vegi með slitlagi frá Hólmavík í botn Kollafjarðar, framkvæmdakostnaður áætlaður 300 mkr.

Í ályktuninni segir að staða Strandabyggðar sé alvarleg og að sveitarfélagið hafi nýverið verið tekið inn í verkefnið Brothættar byggðir. Í verkefninu Brothættar byggðir er leitað allra leiða til að bæta búsetuskilyrði í sveitarfélaginu.

„Úrbætur í innviðum er hér lykilþáttur en umræddur vegkafli er hluti af daglegri vinnu og skólasókn íbúa í Strandabyggð.“ segir í ályktun Fjórðungsþingsins.

Fyrir liggur ný stefnumörkun Alþingis um málefni sveitarfélaga, þar sem lögð er áhersla á að styðja við þætti er auka samvinnu eða sameiningu sveitarfélaga. Telur Fjórðungsþing Vestfirðinga því rétt að minna á að umræddur vegkafli var innan Kirkjubólshrepps. Nú eru liðin 18 ár frá sameiningu Hólmavíkurhrepps og Kirkjubólshrepps undir nafni Hólmavíkurhrepps og 14 ár frá sameiningu Broddaneshrepps undir nafni Strandabyggðar.

 

DEILA