Fjórðungsþing vill jarðgangaáætlun en ekki samkomulag um röðun

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var um síðustu helgi  styður bókun umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem lögð var fram við afgreiðslu Samgönguáætlunar 2020-2034 og felur í sér að unnin verði ný Jarðgangaáætlun.

Í þeirri bókun er hvorki tekið af skarið um hvað jarðgöng skuli gerð á þessu 15 ára tímabili né nein röðun á þeim. Hins vegar eru talin upp 10 verkefni og þar af eru fimm þeirra á Vestfjörðum, Skutulsfjörður-Álftafjörður, Hálfdán, Miklidalur, Kleifaheiði og breikkun Vestfjarðaganga.

Athygli vekur að ekki er minnst á Klettháls í nefndaráliti nefndarinnar, en hálsinn verður að óbreyttu helsti farartálmi fyrir umferð frá sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum til höfuðborgarsvæðisins eftir að núverandi framkvæmdum á Vestfjarðavegi 60 lýkur.

Í ályktun Fjórðungsþingsins segir ennfremur að fullreynt sé að  leggja vegi á Vestfjörðum um há fjöll eða um hlíðar þar sem er stöðug snjóflóðahætta.

„Samfélög og atvinnulíf dagsins í dag og til framtíðar litið, telja þessar vegtengingar ósættanlegar, þær hindra framþróun og skerða samkeppnisstöðu landshlutans. Stjórnvöld og atvinnulíf gera einnig ráð fyrir greiðum samgöngum þegar skipulögð er miðlæg Þjónusta, með tilheyrandi lokunum minni þjónustueininga í einstaka byggðarlögum.“

 Forgangsröðun Vestfirðinga liggur ekki fyrir 

Vegna þess eigi ný jarðgangaáætlun og forgangsröðun verkefna að taka mið af þessari samfélagsþróun.

Svo segir í ályktuninni : „Forgangsröðun verkefna ræðst einnig af samstöðu vestfiskra sveitarstjórnar og því er nauðsynlegt að unnin sé sértæk jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði.“

Niðurstaða Fjórðunsþingsins nú um jarðgangaáætlun er efnislega sú sama og varð í fyrra, að gera þurfi heildstæða jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði.

DEILA